Björgun Guðrúnar Gísladóttur kostar 230 milljónir króna
Mengunarvarnir Norska ríkisins hafa samþykkt áætlun Hauks Guðmundssonar og Íshúss Njarðvíkur um að ná Guðrúnu Gísladóttur af hafsbotni, en skipið liggur nú á um 40 metra dýpi við Lofóten. Mengunarvarnirnar hafa gefið björgunaraðilum frest til áramóta til að ná skipinu af hafsbotni. Frá því skipið strandaði þann 18. júní í sumar hefur óvissa ríkt um björgun skipsins, en útgerðin fékk frest til 15. október til að ná tæplega 400.000 lítrum af olíu úr flakinu. Ekki hefur olíunni enn verið dælt úr skipinu, en Íshús Njarðvíkur keypti skipið af Festi hf. í Grindavík og hefur Íshúsið fengið áætlanir sínar um björgun skipsins samþykktar af norskum yfirvöldum. Gert er ráð fyrir því að skipið verði komið upp á yfirborðið fyrir næstu áramót. Íshús Njarðvíkur hefur lagt fram 140 milljóna króna tryggingu til Norsku mengunarvarnanna um að ráðist verði í björgunarframkvæmdir, en talið er að kostnaður við björgunina nemi allt að 230 milljónum króna. Í björgunaráætlunum er gert ráð fyrir að skipinu verði lyft með öllu innanborðs, en auk olíunnar eru þar 870 tonn af síldarflökum.