Björg Ásbjörnsdóttir dúxaði í FS
Björg Ásbjörnsdóttir dúxaði í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en útskrift hjá skólanum fór fram í dag. Björg er fyrsti nemandinn á Suðurnesjum sem klárar 9 áfanga í stærðfræði með einkunnina 10.0 í þeim öllum. Að þessu sinni útskrifuðust 59 nemendur; 46 stúdentar, 3 meistarar, 7 iðnnemar og 3 útskrifuðust af starfsnámsbrautum. Nokkrir nemendur brautskráðust af tveimur eða fleiri námsbrautum. Konur voru 33 en karlar 26. Alls komu 34 úr Reykjanesbæ, 9 úr Grindavík, 6 komu úr Garði, 5 frá Sandgerði og einn úr Vogum. Nemendur úr sveitarfélögum utan Suðurnesja voru fjórir.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Björg Ásbjörnsdóttir fékk gjöf frá Bókabúð Keflavíkur fyrir góðan árangur í íslensku og frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði. Björg fékk einnig viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í sögu, spænsku, íþróttum, stærðfræði, efnafræði og líffræði. Kristín Þóra Jökulsdóttir fékk gjöf frá Eddu-útgáfu fyrir góðan árangur í íslensku og viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í félagsfræði, sögu, dönsku, frönsku, þýsku og ensku. Björgvin Sigmundsson fékk bókagjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og auk þess viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í sögu og stærðfræði. Rósa María Óskarsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í félagsfræði og myndlist, Marsibil Lillý Guðlaugsdóttir fyrir dans, Ingunn Oddsdóttir fyrir félagsfræði, Ingunn Sigríður Unnsteinsdóttir fyrir sögu og Þorsteinn Sæmundsson fyrir góðan árangur í vélstjórn. Þorsteinn fékk einnig gjöf frá Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja fyrir árangur sinn. Þá fékk Arnar Már Halldórsson viðurkenningu frá skólanum fyrir störf í þágu nemenda.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Þórir Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni hlaut Björg Ásbjörnsdóttir viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og hún hlaut einnig viðurkenningar fyrir árangur sinn í stærðfræði og raungreinum. Kristín Þóra Jökulsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur í íslensku, tungumálum og samfélagsgreinum.
Við útskriftina afhenti Karl Hólm Gunnlaugsson frá Iðnaðarmannafélagi Suðurnesja veglega gjöf til verknámsdeilda skólans, eða 1.500.000 kr. Gjöfin verður nýtt til tækjakaupa og ljóst að hún mun nýtast vel í verknáminu. Fjölbrautaskóli Suðurnesja kann félaginu bestu þakkir fyrir þann hlýhug sem það hefur sýnt skólanum og nemendum hans með þessari höfðinglegu gjöf.
Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari kvaddi Jón Sæmundsson og færði honum gjöf frá skólanum en Jón lætur nú af störfum fyrir aldurs sakir. Jón var fjármálastjóri skólans um árabil en hefur undanfarin tvö ár unnið að ýmsum verkefnum fyrir skólann og meðal annars haldið utan um fjármál tengd nýbyggingunni sem tekin var í notkun í haust. Skólameistari sæmdi Jón einnig gullmerki FS við þessi tímamót.
Við lok athafnarinnar kvaddi Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari skólann að sinni en hann verður í námsleyfi næsta árið. Á meðan gegnir Oddný Harðardóttir stöðu skólameistara en Kristján Ásmundsson leysir hana af sem aðstoðarskólameistari.
Efsta myndin: Björg Ásbjörnsdóttir dúx í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Neðsta myndin: Þeir nemendur sem fengu verðlaun fyrir góðan námsárangur. VF-mynd: Atli Már - Texti: Víkurfréttir og Fjölbrautaskóli Suðurnesja