Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bjóða út undirbúningsvinnu vegna Suðurnesjalínu 2
Föstudagur 18. september 2015 kl. 16:12

Bjóða út undirbúningsvinnu vegna Suðurnesjalínu 2

Landsnet auglýsir um helgina eftir tilboðum í gerð vegslóðar, jarðvinnu og undirstöður vegna byggingar Suðurnesjalínu 2, 220 kílóvolta (kV) háspennulínu frá Hraunhellu Í Hafnarfirði að Rauðamel norðan Svartengis. Línuleiðin er rúmir 32 kílómetrar og möstrin verða alls 100 talsins.

Verkið felur í sér gerð nýrrar vegslóðar með línunni að hluta til, gerð hliðarslóða og vinnuplana við möstur, jarðvinnu vegna undirstaða og stagfesta ásamt efnisútvegun og framleiðslu undirstaða og stagfesta og skal því að fullu lokið fyrir septemberlok 2016. Útboðsgögn verða afhent frá og með næsta mánudegi og þurfa tilboð að berast til Landsneti fyrir kl. 14, þriðjudaginn 20. október 2015.

Suðurnesjalína 2 verður hluti af almennu raforkuflutningskerfi Landsnets. Áætlaður framkvæmdakostnaður eru tæpir þrír milljarðar króna, framkvæmdatími er um tvö ár og er nú stefnt að því að þær hefjist á næstu mánuðum. Mannaflaþörf verkefnisins er 42 ársverk og ráðgert að allt að 50 manns vinni að því þegar umsvifin verða hvað mest.

Brýnt að styrkja flutningskerfi raforku á Reykjanesi
Suðurnesjalína 2 er hluti af verkefninu Suðvesturlínur sem Landsnet hóf að undirbúa fyrir rúmum áratug með það að markmiði að byggja upp raforkukerfið á Suðvesturlandi til framtíðar, allt frá Hellisheiði og út á Reykjanes. Umhverfismat vegna framkvæmdanna var samþykkt með skilyrðum árið 2009 og í ársbyrjun 2011 hófst undirbúningur að sjálfri framkvæmdinni. Þá var ákveðið að byrja á styrkingu flutningskerfisins á Suðurnesjum þar sem þörfin væri brýnust, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis, og reisa 220 kV háspennulínu frá Hafnarfirði að Reykjanesbæ. Suðurnesjalína 1, sem nú þjónar svæðinu og rekin er á 132 kV spennu, er fulllestuð í dag jafnframt því sem öryggi kerfisins er ófullnægjandi þar sem aðeins er um þessa einu tengingu að ræða frá Reykjanesskaganum við 220 kV meginflutningskerfi Landsnets, segir í frétt á vef Landsnets.

Fylgir núverandi mannvirkjabelti
Orkustofnun veitti leyfi fyrir byggingu og rekstri Suðurnesjalínu 2 vorið 2014. Í byrjun sama árs heimilaði iðnaðar og viðskiptaráðherra Landsneti að taka tiltekin landsréttindi á Reykjanesskaga eignarnámi vegna lagningar línunnar þar sem samningar höfðu ekki náðst við alla landeigendur. Í júlí 2014 hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfu um ógildingu eignarnámsheimildanna og í sama mánuði hafnaði Skipulagsstofnun kröfu um endurskoðun umhverfismatsskýrslu vegna Suðurnesjalínu 2 og verkefnisins Suðvesturlínur. Sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir byggingu línunnar í maí 2014 til sveitarfélaganna Grindavíkur, Hafnafjarðarbæjar, Reykjanesbæjar og Voga, og liggur það nú fyrir.

Suðurnesjalína 2 mun að miklu leyti fylgja núverandi Suðurnesjalínu 1 frá tengivirkinu í Hamranesi í Hafnarfirði að tengivirki við Rauðamel norðan Svartsengis í Reykjanesbæ, nema austast á svæðinu þar sem gert er ráð fyrir að hún liggi í nýju línubelti töluvert fjær núverandi byggð í Hafnarfirði. Landraski verður haldið í lágmarki og jafnframt er orðið við tilmælum sveitarfélaga á svæðinu og helstu fagstofnana um að nýja línan verði reist í núverandi mannvirkjabelti, þar sem fyrir eru Suðurnesjalína 1 og Reykjanesbraut.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024