Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bjóða út byggingu tengivirkis í Helguvík
Þriðjudagur 24. febrúar 2015 kl. 11:15

Bjóða út byggingu tengivirkis í Helguvík

Landsnet óskar nú eftir tilboðum í jarðvinnu, byggingu og fullnaðarfrágang húss og spennarýma fyrir Stakk, sem er tengivirki Helguvík. Verkið felur í sér jarðvinnu og byggingu óeinangraðs stálgrindarhúss yfir rofabúnað, staðsteyptra spennarýma með stálgrindarþaki og lokun og byggingu staðsteypts einangraðs stjórnbúnaðarhúss.

Landsnet hefur gert samning við United Silicon um flutning raforku til kísilvers sem byggja á í Helguvík og er stefnt að því að tengingin verði komin í gagnið fyrir 1. febrúar 2016.

Nýja tengivirkið er hannað með hugsanlega stækkun í huga. Búið er að gera samning við þýska kapalframleiðandann Nexans um kaup á 132 kílóvolta (kV) jarðstreng sem lagður verður á milli tengivirkjanna í Helguvík og Fitjum.

Í Fitjum verður settur nýr rofi til þess að tengja jarðstrenginn. Bygging tengivirkisins í Helguvík og lagning strengsins verða boðin út snemma árs 2015. Strengurinn verður um 9 km langur, með 1.600 mm2 heilum álkjarna og getur hann flutt um það bil 160 MW. Hann verður framleiddur í verksmiðju Nexans í Hannover og lagður sumarið 2015.

Jarðstrengurinn liggur um land Reykjanesbæjar, Garðs og Keflavíkurflugvallar og er hann á aðalskipulagi sveitarfélaganna þar sem er jafnframt gert ráð fyrir fleiri jarðstrengjum í framtíðinni.


Hér er sýnd leiðin sem jarðstrengurinn mun fara um frá Fitjum og til Helguvíkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024