Bjóða prjónastofustjóra að halda kynningu fyrir prjónakonur
Hópur 40-50 prjónakvenna sem hittast vikulega í Virkjun á Ásbrú vilja bjóða Ágústi Þ. Eiríkssyni, eiganda Drífu ehf. (Icewear) sem rekur saumastofuna Víkurprjón, til að koma og hitta prjónakonurnar í Virkjun annað kvöld, þriðjudagskvöld, kl. 20.
Víkurprjón hefur auglýst á Suðurnesjum eftir starfsfólki í saumastofu sem stendur til að opna í Reykjanesbæ í næsta mánuði. Auglýst er eftir 10-11 starfsmönnum. Prjónakonurnar eru áhugasamar um að hitta Ágúst og fá hann til að kynna þau störf sem eru í boði og fyrirætlanir Víkurprjón á Suðurnesjum.
Prjónakonurnar höfðu samband við Víkurfréttir og vildu að boðinu yrði komið á framfæri í gegnum vef blaðsins.