Bjóða flugelda í áskrift – Flugeldasalan byrjuð
– flugeldasalan gengur vonum framar
Flugeldasala Björgunarsveitarinnar Suðurnes fer vel af stað og gengur vonum framar. Björgunarsveitin er með flugeldamarkaði á tveimur stöðum í Reykjanesbæ. Risaflugeldamarkaður er í björgunarstöðinni við Holtsgötu 51 og þá er einnig sölustaður í vel merktum gámum á bílastæði í Krossmóa rétt hjá Nettó.
Sigurður Guðjónsson björgunarsveitarmaður stóð vaktina á flugeldamarkaðnum á Holtsgötu þegar Víkurfréttir kíktu þar við síðdegis. Talsvert hefur verið að gera þar í allan dag og reyndar frá því í gær þegar flugeldasalan var opnuð með mikilli fjölskylduhátíð sem hátt í 1000 manns sóttu.
Björgunarsveitin Suðurnes er að bjóða fjölskyldupakka í ýmsum stærðum og tertur allt frá smákökum og upp í risastórar tertur sem eru sannkallaðar flugeldasýningar. Þá eru barnapakkar með ýmsu smádóti vinsælir nú eins og áður. Sigurður segir sömu verð á flugeldum í ár eins og í fyrra. Þá eru nú í boði tilboð á fjölskyldupökkum og tertum.
Gamlársdagur er alltaf stærsti söludagurinn í flugeldum en Sigurður hvetur fólk til að vera tímanlega á ferðinni, enda álagið alltaf mikið á gamlársdag.
Björgunarsveitin Suðurnes er nú farin að bjóða flugelda í áskrift. Með því fyrirkomulagi getur fólk lagt ákveðna upphæð fyrir á mánuði og myndað þannig inneign til að nota til flugeldakaupa að ári. Með áskrift er stofnuð krafa í heimabanka sem fólk greiðir þá mánaðarlega. Upphæðin er valfrjáls en með því að greiða 1000 krónur á mánuði þá eiga áskrifendur orðið 12.000 krónur að ári til að nota til flugeldakaupa. Einnig er hægt að greiða áskriftina með greiðslukorti.
Flugeldamarkaðir Björgunarsveitarinnar Suðurnes eru opnir daglega frá kl. 10-22 og kl. 10-16 á gamlársdag. Sölustaðir eru að Holtsgötu 51 í Njarðvík og á bílastæði í Krossmóa við Nettó.
Frá flugeldamarkaði Björgunarsveitarinnar Suðurnes við Holtsgötu 51 í Njarðvík. Björgunarsveitin seldur einnig flugelda á sölustað á bílastæði við Nettó í Krossmóa.