Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bjóða fallegri og umhverfisvænni lausn fyrir Suðurnesjalínu
Sunnudagur 22. september 2013 kl. 10:00

Bjóða fallegri og umhverfisvænni lausn fyrir Suðurnesjalínu

Víkurfréttir greindu frá því í desember sl. að Suðurnesjamaðurinn Magnús Rannver Rafnsson hefur ásamt fleirum unnið að hönnun og þróun háspennumastra undanfarin ár. Sú vinna hefur leitt af sér fyrirtækið Línudans ehf. Að sögn Magnúsar myndu möstrin henta fyrir nýja Suðurnesjalínu.

Möstrin sem Línudans hefur þróað eru gerð úr trefjastyrktu plasti. „Trefjastyrkt plast er að sækja mjög á á mörgum sviðum verkfræðinnar, þetta er eitt þeirra. Það er mikil uppsöfnuð þörf fyrir breytingar þegar kemur að háspennumöstrum,“ sagði Magnús í samtali við Víkurfréttir á sínum tíma.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti hafa möstur verið valin í samráði við sveitarfélög á viðkomandi svæðum fyrir nýja Suðurnesjalínu 2. Þau verða hefðbundin stálmöstur en ekki úr trefjastyrktu plasti.

Magnús hjá Línudansi segir að fyrirtæki hans hafi m.a. haldið kynningu fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og öllum sveitarfélögum hafi verið skrifað bréf þar sem trefjastyrktu plastmöstrin hafi verið kynnt.

„Frá árinu 2010 höfum við reynt að komast að hjá Sveitarfélaginu Vogum. Það hefur verið árangurslaust og okkur hefur ekki verið svarað,“ segir Magnús í samtali við Víkurfréttir. Þetta er athyglisvert m.a. í ljósi þess að mikið er rætt um sköpun nýrra atvinnutækifæra á Suðurnesjum, haldnir eru stórir fundir um þessi mál á sama tíma og hin raunverulegu tækifæri eru ekki skoðuð til hlítar. Áætlanir Línudans ehf. gera ráð fyrir yfir 100 tæknistörfum þegar fram í sækir. Markaðurinn býður upp á fleiri störf ef vilji er til.

Hann segir að fyrirtækið Línudans hafi viljað vekja athygli á nýjum valmöguleikum með trefjastyrkt plastmöstur. Fyrirtækið hafi hannað fimm týpur af möstrum fyrir 220 kV línur og uppúr. Horfið er frá þeirri tækni sem venja er að nota og á rætur í 19. öldinni (Eiffel turninn gott dæmi) og leitast við að nýta sér til fulls möguleikana í 21. aldar verkfræði. Þetta er mikilvægt þegar haft er í huga að þessi mannvirki eiga eftir að standa í áratugi.

Magnús segir að kostnaður við trefjastyrktu plastmöstrin sé sambærilegur við stálmöstur. Hins vegar sé endingin mun meiri og viðhaldskostnaður lægri. Á svæðum þar sem jarðvarmavinnsla fer fram með tilheyrandi mengun, er munurinn margfaldur. Á Hellisheiðinni eru minnismerki um það hversu illa stálmöstur fara á slíkum svæðum vegna tæringar. Skv. þeim upplýsingum sem almenningur hafi, þá standi til að virkja jarðvarma á Suðurnesjum. Fjöldamargir tæknilegir kostir fylgja því að nota plast í stað stáls.

Landsnet er eini verkkaupi hér á landi þegar kemur að háspennumannvirkjum sem þessum. Línudans hefur náð eyrum Landsnets og hefur samið við fyrirtækið um uppsetningu á þremur tilraunamöstrum.

„Trefjastyrktu plastmöstrin eru umhverfisvænni og okkar lausnir eru líklegri til sáttar í samfélaginu,“ segir Magnús Rannver Rafnsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024