Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 4. febrúar 2000 kl. 12:36

Bjartir tímar framundan í Garði

Búið er að taka ákvörðun um einsetningu Gerðaskóla. Framkvæmdir hefjast 2001 og skólinn verður einsetinn haustið 2002. Sigurður Jónsson, sveitarstjóri Gerðahrepps, sagði að nauðsynlegt væri að bæta við fjórum kennslustofum til að uppfylla öll skilyrði um einsetningu. Arkitektar sf. og Verkfræðistofa Suðurnesja hafa verið fengin til að sjá um hönnun á viðbyggingu skólans en útboð fer fram í ágúst á þessu ári. Fjölgun íbúa Sigurður sagði að einsetningin myndi hafa töluverðar breytingar í för með sér en stærsta breytingin væri sú að öll kennsla mun fara fram fyrir hádegi. „Einsetning skólans er liður í að laða fólk til búsetu í Gerðahreppi. Við getum þó ekki kvartað yfir fækkun því þegar litið er til s.l. 10 ára þá hefur fjölgun í hreppnum verið um 11% og á síðasta ári fjölgaði um 0,9%“, sagði Sigurður. Hann sagði það þó vera áberandi hversu mikil hreyfing væri nú á fólki. „Ég gæti trúað að 10-15% íbúa væri hreyfanlegur, þ.e. sá hluti fólks sem flytur í burtu en hingað til hefur sama hlutfall komið í staðinn fyrir hina brottfluttu“, sagði Sigurður og bætti við að þetta væri sennilega svipað hlutfall og annars staðar á landinu. Fleiri byggingarlóðir Fasteignaviðskipti í Garði hafa að undanförnu gengið vel. Eftirspurn eftir leiguhúsnæði er einnig mikil. Sigurður sagði að sveitastjórn Gerðahrepps væri að fara að gera átak í lóðamálum og gefa fólki tækifæri á að byggja í Garði. „Við erum að fara að semja við verktaka en á síðasta fundi byggingarnefndar var fjallað um fyrirspurn verktaka um að byggja 4-6 íbúðir í Garði. Búmenn hafa líka sýnt áhuga á að byggja hér nokkrar íbúðir. Byggingarnefnd er búin að láta vinna deiliskipulag fyrir svæðið neðan við Silfurtún, ofan við Klappartún og í Útgarði. Á þessum svæðum munu skapast byggingarlóðir fyrir nokkra tugi íbúða“, sagði Sigurður. Suðurnesin eitt atvinnusvæði Sigurður sagði að vel væri gert við fyrirtækin sem eru staðsett í Garðinum, hvað varðar fasteignagjöld og annað. „Við erum þátttakendur í verkefni sem Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar er að vinna að, Reykjanes 2003. Við lítum á allt Reykjanessvæðið sem eitt svæði og mér finnst að sveitarfélögin eigi að leggja áherslu á að styðja hvert annað í atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Við hér í Garði munum auðvitað leggja okkur fram við að Gerðahreppur verði áfram vistvænt og huggulegt sveitarfélag sem fólk vill búa í“, sagði Sigurður Jónsson að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024