Bjartir tímar framundan - segir nýr meirihluti Reykjanesbæjar
Friðjón formaður bæjarráðs. Jóhann og Guðbrandur skipta með sér forsetaembættinu
„Við erum mjög ánægð með þessa útkomu og það hefur verið mikill og góður taktur, samheldni og heilindi í þeirri vinnu að gera þennan málefnasamning. Við náðum góðri lendingu í öllum stóru málunum og við hlökum til samstarfsins,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, oddviti Framsóknarflokksins og nýliði í bæjarstjórn en hann verður forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fyrstu tvö árin. Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar mun taka við forsetaembættinu eftir tvö ár og sinna því seinni helming kjörtímabilsins. Friðjón Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar verður formaður bæjarráðs en flokkurinn er stærstur í meirihlutasamstarfinu með 3 bæjarfulltrúa, Framsókn tvo og Bein leið með einn.
„Nýr meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar mun leiða mikilvæg verkefni á næstu árum í góðu samstarfi við fulltrúa allra flokka í bæjarstjórn og íbúa Reykjanesbæjar. Það eru bjartir tímar framundan og saman munum við gera gott samfélag enn betra,“ segir í upphafi málefnasamningsins.
„Brátt mun Reykjanesbær verða fjölmennasta bæjarfélag landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikill viðsnúningur í rekstri Reykjanesbæjar en bærinn hefur glímt við verulega fjárhagserfiðleika sem vonandi sér brátt fyrir endann á.
Mikil fólksfjölgun og breytt samfélagsmynstur kallar á aukna þjónustu og hraða uppbyggingu innviða. Brýnt er að mæta þeirri þörf, en í senn tryggja áfram trausta fjármálastjórn og niðurgreiðslu skulda.“
Sjónvarp Víkurfrétta sýndi beint frá kynningu meirihlutasamstarfsins í Duus-húsum. Sjá myndskeið hér að neðan.
F.v. Guðný B. Gunnarsdóttir, Samfylkingu, Guðbrandur Einarsson ,Beinni leið, Jóhann F. Friðriksson, Framsóknarflokki, Díana Hilmarsdóttir, Framsóknarflokki, Styrmir Gauti Fjeldsted og Friðjón Einarsson báðir Samfylkingu.