Bjargaði tveimur ungum drengjum út úr íbúð fullri af reyk
Ragnar Rúnar Þorgeirsson, íbúi við Túngötu 22 í Grindavík, sýndi mikið snarræði í morgun þegar hann náði tveimur drengjum, 3ja og 5 ára, út úr íbúð sem fyllst hafði af reyk á neðri hæð hússins en Ragnar býr á efri hæðinni. Reykurinn var frá potti sem gleymst hafi á eldavél.
„Maður getur nú svo sem aldrei vitað hversu tæpt þetta stóð en af því að ég er vélstjóri og hef farið á nokkur námskeið í brunavörnum þá veit ég að svona reyk þarf maður ekki að anda að sér nema einu sinni eða tvisvar til að steinliggja. Maður finnur ekki einu sinni fyrir svima áður, þetta er svo lúmskt og það er rétt að brýna það fyrir fólki ef það stendur frammi fyrir svona aðstæðum,“ sagði Ragnar í samtali við VF.
Ragnar hafði tekið að sér að líta til með drengjunum í morgun þangað til þeir færu á leikskólann. Þeir voru sofandi þegar þetta gerðist. Ragnar fann reykinn koma upp á efri hæðina og hljóp niður og var þá íbúðin orðin full af reyk. Með drengina í fanginu hljóp hann í gegnum reykjarkófið fram í þvottahús þar sem hann setti þá niður til að geta hringt í Neyðarlínuna og opnað þvottahúshurðina út á lóð.
„Drengirnir voru snarringlaðir, rifnir upp af værum svefni og grétu mikið. Ég sneri mér aðeins undan til að heyra betur í þeim á Neyðarlínunni en á meðan hlupu þeir aftur inn í íbúðina. Ég dróg að mér andann, tók á rás á eftir þeim og náði þeim hóstandi og grátandi inn í reykjarkófinu sem var orðið mjög mikið. Mér tókst að koma pottinum af eldavélinni, það var ekki kviknað í honum en rosalegur reykur af þessu. Ég fór með þá upp í íbúð til mín og skömmu síðar kom slökkviliðið og reykræsti íbúðina,“ segir Ragnar.
Ragnar vill ítreka að fólk hafi í huga hversu hættulegar eiturgufur af svona reyk geta verið. „Maður á að koma sér út sem fyrst. Maður steinliggur um leið og maður andar þessu að sér.“
Ekki varð mikið sót af reyknum en ljóst er að það tekur einhverja daga að losna við lyktina úr íbúðinni.
Vf-mynd/elg