Biskup smitaðist á landsmóti
„Áhugi ykkar og eldmóður er smitandi,“ sagði Agnes biskup, við unglingana á landsmóti ÆSKÞ þegar hún setti mótið í gær. 640 unglingar og leiðtogar koma saman á landsmótinu og þessa helgina ætla þau að helga sig baráttunni gegn fátækt á Íslandi. Þau munu safna fyrir framtíðarsjóð Hjálparstarfs kirkjunnar sem styður efnalítil ungmenni á Íslandi til að ljúka námi.
„Í febrúar fór ég til Malaví, pumpaði þar úr brunni sem hafði verið safnað fyrir hér. Sá nokkrar hænur sem hafði verið safnað fyrir á landsmóti, sá geitur, hitti bónda sem hafði fengið geitur og það var mjög gaman að sjá þetta. Við höfum verk að vinna og við viljum vera málsvari réttlætis og við ætlum að berjast gegn fátækt,“ bætti hún við þegar hún setti mótið. Þetta er fyrsta mótið sem hún tekur þátt í eftir að hún tók við embætti biskups Íslands.
Fræðsla um fátækt og karnival
Í dag laugardag verður fræðsla um fátækt á Íslandi og ráðin sem við höfum til bregðast við henni. Í framhaldi af því taka unglingarnir þátt í hópastarfi sem nær hámarki í karnivali í íþróttahúsi Keflavíkur.
Öllum íbúum Reykjanesbæjar er boðið að koma í karnival milli 14:00 og 15:30 á laugardagseftirmiðdegi. Þar gefst kostur á að kaupa veitingar og vörur sem krakkarnir hafa búið til, hlusta á skemmtilega tónlist og taka þátt í margs konar uppákomum. Allur ágóði af karnivalinu rennur óskiptur til Framtíðarsjóðs Hjálparstarf kirkjunnar.
Í framhaldi af karnivalinu fer fram árleg hæfileikakeppni æskulýðsfélaganna. Landsmótinu verður slitið með messu í safnaðarheimili Keflavíkurkirku kl. 11 á sunnudaginn.
Um framtíðarsjóðinn
Framtíðarsjóður Hjálparstarfs kirkjunnar styður ungmenni 16-20 ára til stúdentsprófs, sveinsprófs eða annars sem leiðir til starfsréttinda eða opnar leið til háskólanáms. Nemendur eru aðstoðaðir við að greiða námsgögn, skólagjöld, kaupa tölvu eða greiða annað sem gæti orðið efnaminni nemendum hindrun í að ljúka námi. Menntun eykur líkur á öruggri framfærslu og farsælu lífshlaupi.