Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Birtir til í atvinnumálum á Suðurnesjum
Laugardagur 14. desember 2013 kl. 16:53

Birtir til í atvinnumálum á Suðurnesjum

Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi á Suðurnesjum frá því fyrsta áfangaskýrsla Suðurnesjavaktarinnar kom út, en í mars 2011 mældist atvinnuleysi 14,5% á meðan það var 8,6% yfir landið allt. Í september 2013 var hlutfall atvinnuleysis á svæðinu komið niður í 5,4% en yfir landið allt var hlutfallið 3,8%.
Þessa fækkun má að einhverju leyti rekja til þess að bótatímabil var fært aftur niður í þrjú ár um síðustu áramót. Á árinu 2012 voru 108 einstaklingar sem fullnýttu bótarétt sinn og gert er ráð fyrir að 128 einstaklingar muni fullnýta bótarétt sinn á þessu ári. Þá hefur Liðsstyrkur, átak sem nú er í gangi og miðar að því að aðstoða þá sem lengst eru komnir með að nýta bótarétt sinn við að fá vinnu, gengið ágætlega. Það virðist vera að birta til í atvinnumálum á svæðinu og þeim fjölgar sem skrá sig af bótum vegna þess að þeir eru komnir með vinnu eða eru að fara í nám. Hlutfall á milli kynja á atvinnuleysisskrá hefur verið nokkuð jafnt en undanfarið hefur körlum fækkað meira og eru þeir 42% hópsins en konur eru 58%. Á svæðinu hefur mest dregið úr atvinnuleysi í Sandgerði. Í maí 2012 mældist atvinnuleysi í Sandgerði 11,4% en í september síðastliðnum mældist það 5,7%. Eins og áður mældist minnsta atvinnuleysið í Grindavík eða 2,6%.

Margir búnir að vera mjög lengi á atvinnuleysisskrá
Íris Guðmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, segir að markmiðið hjá stofnuninni sé að bæta yfirsýnina og greina atvinnuleitendur betur. „Við þurfum að gera þarfagreiningu á hópnum sem við erum með á skrá til þess að geta þjónustað einstaklingana betur. Hér eru einnig margir sem eru búnir að vera mjög lengi á skrá og eru jafnvel ekki lengur vinnufærir og þeir einstaklingar þurfa þá að komast í viðeigandi úrræði,“ segir Íris. Að sögn Írisar eru tæp 32% þeirra sem eru á skrá undir 30 ára aldri. Þrátt fyrir að það hlutfall hafi minnkað um 5% frá því á síðasta ári þá sé það ekki góð staða og mikilvægt sé að halda þessum hópi í virkni og þjálfun.

Í síðustu áfangaskýrslum Suðurnesjavaktarinnar hefur komið fram að menntunarstig atvinnuleitenda á Suðurnesjum sé mun lægra samanborið við landið allt. Sú staðreynd á enn við en 72,5% atvinnuleitenda á Suðurnesjum eru einungis með grunnskólapróf en á landsvísu er hlutfallið 44%. Hlutfall atvinnuleitenda á Suðurnesjum sem lokið hafa háskólaprófi er 6,3% en yfir landið allt er hlutfallið 22%, samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Þess má geta að í maí 2012 var hlutfall atvinnuleitenda á Suðurnesjum sem lokið hafa háskólaprófi 5,3%.

Vorið 2012 var STARF vinnumiðlun sett á laggirnar en það er þriggja ára tilraunaverkefni á vegum velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Markmið verkefnisins er að efla vinnumiðlun og stuðla að virkari vinnumarkaðsaðgerðum sem jafnframt auki líkur atvinnuleitenda á því að fá störf á vinnumarkaði að nýju. Verkefnið nær meðal annars til þeirra atvinnuleitenda á Suðurnesjum sem eru félagsmenn í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélagi Sandgerðis og FIT (Félag iðn- og tæknigreina). Þessi stéttarfélög sameinast um þjónustumiðstöð í húsnæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.

Þriðja kynslóðin á skrá sig á bætur
Guðbjörg Kristmundsdóttir er atvinnuráðgjafi hjá STARF á Suðurnesjum og segir hún nokkuð meiri bjartsýni ríkja meðal fólks en fyrir um ári síðan.
„Fyrir um ári síðan var alls enga vinnu að fá en það virðist vera að breytast en störfin mættu auðvitað vera mun fleiri,“ segir Guðbjörg. Hún segir jafnframt að atvinnuleitendur séu misjafnlega duglegir í atvinnuleit en á meðan flestir reyna hvað þeir geta til þess að fá starf þá séu einstaklingar innan um sem leggi sig ekki nógu vel fram og það þurfi að vinna sérstaklega með þann hóp. „Það sem við höfum helst áhyggjur af er yngri hópurinn eða einstaklingar upp úr tvítugu sem eru komnir á bætur. Við sjáum það líka koma fyrir að þriðja kynslóðin kemur og skráir sig hjá okkur og það er ekki góð þróun. Þessi hópur þarf mikla hvatningu og mikilvægt að hann nýti sér öll þau úrræði sem eru í boði,“ segir Guðbjörg.
Um þriðjungur þeirra sem eru á skrá hjá STARF á Suðurnesjum eru Pólverjar en þeir hafa sérstaklega verið hvattir til þess að nýta sér íslenskunámskeið og fleira sem stendur þeim til boða. Guðbjörg segir að STARF leggi mikla áherslu á vinnumiðlunarþáttinn og eigi í góðum samskiptum við atvinnurekendur á svæðinu.

STARF er með þjónustumiðstöðvar í fleiri landshlutum og segist Guðbjörg ekki geta sagt til um hvort staðan á Suðurnesjum sé mikið verri en annars staðar. Hóparnir sem fá þjónustu séu mjög ólíkir og erfitt sé að bera þá saman.
Bæði Íris og Guðbjörg taka undir að það ríki meiri bjartsýni á svæðinu um þessar mundir hvað atvinnumálin varðar og það sé mjög jákvætt hve allir aðilar sem koma að þessum málum (með einhverjum hætti) séu tilbúnir til þess að vinna saman að því að bæta stöðuna í samfélaginu.

Myndin er frá fundi Suðurnesjavaktarinnar í vikunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024