Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Birta myndir af losun eiturefna í skjóli nætur
Þriðjudagur 3. janúar 2017 kl. 21:06

Birta myndir af losun eiturefna í skjóli nætur

Stundin birtir nú í kvöld tvö myndskeið sem tekin eru í kísilveri United Silicon um miðjan desember. Annað þeirra sýnir þar sem reyk er blásið úr tækjabúnaði kísilversins út í andrúmsloftið í skjóli nætur. Hitt sýnir hvar verksmiðjan er full af reyk þannig að vart sést handa skil.
 



Einn af þeim myndskeiðum sem Stundin sýnir í kvöld.

„Kísilmálmverksmiðja United Silicon hefur að undanförnu losað hættuleg eiturefni í skjóli nætur út úr reykhreinsivirki verksmiðjunnar og út í andrúmsloftið. Um er að ræða ryk sem verður til við bruna á timbri en timbrið er notað til þess að hita upp fyrsta ofninn af fjórum sem United Silicon hyggst gangsetja á næstu árum. Myndskeiðið var tekið um miðjan desember en samkvæmt heimildum Stundarinnar innan verksmiðjunnar hefur þetta verið gert ítrekað, alltaf að næturlagi,“ segir á vef Stundarinnar nú í kvöld..
 
Þá segir í fréttinni að United Silicon hafi aldrei tekist að halda kjörhitastigi á  fyrsta ofni verksmiðjunnar frá því hann var fyrst gangsettur 13. nóvember sl. „Af þeim sökum hefur verksmiðjan brennt mun meira af timbri en áætlað var en umrætt timbur var og er blautt og því verða til hættuleg og krabbameinsvaldandi efni við brunann. Efnin sem um ræðir eru svokölluð PAH-efni og B(a)P-efni. Ekki er þó hægt að fullyrða hversu mikið magn af eiturefnum leynist í þessari losun verksmiðjunnar þar sem þessari aðferð hefur verið haldið leyndri fyrir eftirlitsstofnunum,“ segir í frétt Stundarinnar.
 
Miðillinn ræðir við starfsmann kísilversins sem ekki kemur fram undir nafni og þar er lýst aðbúnaði. „Ef fólk vissi bara hvað færi hér fram þá væri löngu búið að loka þessari verksmiðju, það er engin spurning,“ segir starfsmaður sem Stundin ræddi við. Hann segir að sér sé umhugað um öryggi og heilsu vinnufélaga sinna „Menn eru að segja upp störfum einfaldlega af öryggisástæðum. Það situr í mér hversu máttlausar eftirlitsstofnanirnar eru. Ég trúi ekki öðru en að eftirlitsaðilar hafi tekið út sjúkraherbergið, starfsmannaaðstöðuna og sjálft vinnusvæðið en ekkert hefur breyst og ekkert hefur verið lagað. Hvar er heilbrigðiseftirlitið? Vinnueftirlitið? Slökkviliðið? Umhverfisstofnun?“ spyr starfsmaðurinn í frétt stundarinnar.
 
Í fréttinni segir að fleiri myndskeið verði birt næstu daga.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024