Bíræfinn bifhjólamaður í ofsaakstri
Bíræfinn ökumaður bifhjóls reyndi nýverið að stinga lögregluna á Suðurnesjum af með ofsaakstri. Ók hann allt hvað aftók um götur Keflavíkur, göngustíg, tún og móa og reiðveg uns hann gafst upp á akstrinum og reyndi að fela hjólið og sig við húsnæði í Reykjanesbæ.
Upphaf máls var að lögreglumenn voru við hefðbundið umferðareftirlit þegar bifhjóli var ekið á móti þeim á öfugum vegarhelmingi á alltof miklum hraða miðað við gildandi hámarkshraða. Þegar ökumanni hjólsins var gefið merki um að stöðva það gaf hann allt í botn og lá leiðin um vegi og vegleysur. Var akstur hans með þeim hætti að hjólið fór í loftköstum á köflum. Lögreglumenn fylgdust með akstri hans sem linnti svo með ofangreindum hætti. Ökumaðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem hann játaði að vera ekki með ökuréttindi á bifhjólið og iðraðist sáran gjörða sinna.