Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Bindur vonir við öflugt samstarf
    Hluti nýbyggingarinnar við knattspyrnuvöllinn.
  • Bindur vonir við öflugt samstarf
    Þorsteinn Gunnarsson.
Föstudagur 27. júní 2014 kl. 10:39

Bindur vonir við öflugt samstarf

Möguleikar miklir vegna byggingaframkvæmda.

Vart hefur farið framhjá nokkrum Grindvíkingi, og mörgum öðrum Suðuresjamönnum, að bærinn stendur fyrir miklum framkvæmdum. Umræða hefur verið um framkvæmdirnar og skoðanir skiptar. Byrjað var á íþróttamannvirkjunum og íþróttahúsið byggt fyrst, svo sundlaugin og að lokum stúkan. Tenginguna vantaði þarna á milli og í dag eru tvær afgreiðslur, ein í sundlauginni og önnur í íþróttahúsinu. Ákveðið var að ráðast í að byggja íþróttamiðstöð til að tengja þetta allt saman á einni hæð.



Algjör bylting fyrir íþróttadeildirnar
„Í húsinu verður félagsaðstaða fyrir UMFG þar sem deildirnar verða með skrifstofu, fundaaðstöðu og aðstöðu fyrir eldhús og veislur. Þetta verður algjör bylting fyrir UMFG sem hefur verið hornreka í mörg ár. Þau hafa verið með aðstöðu í útistofu við grunnskólann,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs hjá Grindavíkurbæ. Þá muni gula húsið sem knattspyrnan hefur verið með hverfa. „Kvenfélagið kemur þarna líka inn sem hefur enga aðstöðu í dag en var áður í félagsheimilinu Festi. Síðan verða þarna búningsklefar fyrir sundlaugina og fótboltann, flottir klefar sem standast alþjóðlega staðla.“ Í gömlu sundlauginni verður einnig byggð líkamsræktaraðstaða og verður auglýst eftir aðilum sem gætu viljað leigja hana. Þá verður tengigangur á milli bygginganna. „Þetta kostar allt saman 600 milljónir og það er ekki króna í lán. Notast er við veltufé frá rekstri og handbært fé úr sjóðunum,“ segir Þorsteinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Bætt aðstaða og sérhönnuð rými
Þetta er bara fyrsti áfanginn því Þorsteinn bætir við að í framtíðinni sé gert ráð fyrir meiri framkvæmdum. „Svo var ákveðið að sameina skólabókasafnið og bæjarbókasafnið. Gamli leikfimisalurinn var rifinn og verið er að byggja 400 fermetra á hvorri hæð. Tónlistarskólinn verður uppi og bókasafnið niðri.“ Íþróttamannvirkin verða vígð 1. desember og bókasafnið og tónlistarskólinn í ágúst. Sami verktakinn vinnur að hvoru tveggja, Grindin í Grindavík. Þorsteinn segir mikil samlegðaráhrif og nýtingarmöguleika skapast í tónlistarskólanum. Hann bindur vonir við öflugt samstarf. „Góð aðstaða verður fyrir tónlistarkennslu, tónleika og sérhönnuð hljóðrými og þarna verður upptökustúdíó sem býður upp á ýmsa möguleika fyrir nemendur og ekki síst kennara. Einnig hljóðversvinnu.“



Betri þjónusta með lengri opnunartíma
Þá hafði starfsfólk tónlistarskólans og bókasafnsins heilmikið um það að segja hvernig þetta var hannað. Fulltrúar þeirra voru í byggingarnefnd. „Það er vandað vel til verka. Bókasafnið hefur búið við þröngan kost en á nýjum stað er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir nema og opnunartíminn lengist. Þetta verður svona skemmtileg menningarmiðstöð. Núverandi starfsmenn munu auka við sig starfshlutfall.“ Spurður um viðbrögð bæjarbúa segir Þorsteinn flesta mjög jákvæða fyrir þessu. „Þetta er spurning um forgangsröðun, einhverjir vildu forgangsraða öðruvísi. Bæjarstjórnin og aðalstjórn UMFG voru samstíga í þessu og þar átti og á sér stað fín samvinna. Einnig var fulltrúi UMFG í byggingarnefnd.“

VF/Olga Björt