Bindum börnin
Ungbarnaeftirlit Suðurnesja fékk þrjá barnabílstóla afhenta sl. þriðjudag. Stólana á að nota til að sýna foreldrum tökin við að koma ungbarni fyrir í fjölskyldubílnum. Ný könnun umferðaröryggisfulltrúa við sex leikskóla á Suðurnesjum sýnir að 12-23% foreldra gæta ekki öryggis barna sinna á fullnægjandi hátt.Vátryggingafélag Íslands gaf ungbarnaeftirlitsdeild Heilsugæslu Suðurnesja þrjá ungbarnastóla og Samkaup gaf deildinni dúkkur til að nota í sýnikennslu. Stólunum verður komið fyrir í Reykjanesbæ og í Grindavík en einn þeirra verður notaður til sýniskennslu í öðrum byggðalögum á Suðurnesjum.Að sögn Jóns Gröndals er misbrestur á að börn séu í bílstól en hann leggur áherslu á að fólk gæti fyllsta öryggis barna sinna. Samkvæmt nýrri reglugerð er nú 10 þús. kr. sekt við að hafa börn laus í bílnum.