Binda miklar vonir við fjölgun mæla við Grindavík
- fundað með íbúum í Kvikunni laugardag og sunnudag
Veðurstofa Íslands mun á næstu dögum fjölga mælitækjum við Grindavík. Þannig mun fást meiri nákvæmni í allar mælingar og hvort kvikuhreyfingar séu nærri byggð. Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að í Grindavík séu bundnar miklar vonir við þetta og það skipti miklu máli að fá nákvæmari upplýsingar.
Nú um helgina verður íbúum í Grindavík boðið að koma í menningarhúsið Kvikuna þar sem hægt verður að fá góðar upplýsingar frá vísindafólki. Í dag, laugardag, hefst fundurinn kl. 14:30. Á morgun, sunnudag, verður svo áhersla lögð á að upplýsa þá íbúa Grindavíkur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.