Bílveltan í kjölfar kappaksturs?
Rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurnesjum rannsakar nú hvort bílveltu á Reykjanesbraut í kvöld megi rekja til kappaksturs tveggja BMW bifreiða. Tvær bifreiðar óku á ógnarhraða í átt til Keflavíkur og var annarri þeirra ekið öfugu megin framúr bíl sem ók í sömu átt. Skömmu eftir framúraksturinn fór BMW bifreiðin útaf veginum og yfir tvær akreinar þar sem umferð kom á móti á tvöfaldri Reykjanesbrautinni á Strandarheiði. Bifreiðin hafnaði að lokum á hvolfi úti í móa. Tveir ungir menn sem voru í bílnum voru fluttir á sjúkrahús en meiðsli þeirra reyndust minniháttar.
Sjónarvottur að slysinu segir að bifreiðinni hafi verið ekið á miklum hraða og aðstæður á slysstað benda einnig til þess að svo hafi verið. Bifreiðin sem valt er mikið skemmd, ef ekki ónýt.
Mynd: Frá vettvangi slyssins í kvöld. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson