Bilun í sjálfstýringu um að kenna
Um 137 tonn af olíu eru um borð í Wilson Muuga sem strandaði við Sandgerði í nótt. Gunnar Stefánsson, aðgerðarstjóri Landsbjargar, sagði í hádegisfréttatíma RÚV að verið væri að undirbúa að skjóta línu í land úr skipinu en hann telur að svo stöddu að skipverjum sé ekki búin hætta.
Búið er að kalla út þungavinnuvélar til að fá festu í landi en undirbúningur stendur einnig yfir til þess að dæla olíu úr skipinu ef þess þarf með. Gunnar sagði að samskiptin við skipstjóra Wilson Muuga væru nú orðin þokkalega góð en hann mun ekki hafa verið samstarfsfús í morgun.
Fulltrúi útgerðar Wilson Muuga sagði að orsök slyssins mætti að öllum líkindum rekja til bilunar í sjálfstýribúnaði skipsins.
Símamynd: Hilmar Bragi Bárðarson/ Björgunarmenn á vettvangi