Bilun í hjólabúnaði olli flugóhappinu í dag - myndir
Ranghermt er að hálku hafi verið um að kenna þegar Falcon einkaþota snérist á flugbraut í Keflavík í dag eftir lendingu og sprengdi fjögur dekk. Ástæðan mun hafa verið að hjólabúnaður flugvélarinnar læstist af óljósum orsökum. Málið er til rannsóknar, að því er fram kemur í tilkynningu sem Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Keflavíkurflugvallar hedur sent til fjölmiðla. Vegna þess að hjól vélarinnar voru læst gekk erfiðlega að ná henni í burtu af þeim stað þar sem hún staðnæmdist.
Fjögur dekk Falcon-þotunnar sprungu skömmu eftir að vélin lenti á Keflavíkurflugvelli. Í tilkynningu flugmálayfirvalda á vellinum segir að ís hafi verið á brúnum flugbrautarinnar. Það helgist af því að flugbrautir í Keflavík eru óvenju breiðar eða 60 metrar og krafa um hálkuvörn sé aðeins á 45 metra breiðu lendingarsvæði á slíkum brautum. Ísinn var því alsaklaus í óhappi dagsins.
Til marks um skjót viðbrögð og færni flugvallarstarfsmanna við hálkuvarnir tók það þá einungis 17 mínútur að hreinsa og hálkuverja hina flugbrautina sem ekkert hafði verið átt við í allmargar klukkustundir, þ.e. 3000x45 metra svæði. Starfsmenn Keflavíkurflugvallar máttu hafa sig alla við í dag að hreinsa í burtu ís og hálkueyða, því úrkoma og hitastig voru mjög óhagstæð og fraus allt vatn um leið og það snerti yfirborð flugbrauta og akbrauta á Keflavíkurflugvelli.
Það var ekki hálkuslys sem sprengdi hjólbarðana heldur læstust hjólastellin af óljósum ástæðum.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Starfsmenn Keflavíkurflugvallar ohf. máttu hafa sig alla við í dag að eyða ís af flugbrautum. Bilaði "Fálkinn" olli því að opna þurfti aðra flugbraut sem sem var gerð nothæf á 17 mínútum, enda vanir menn í hverju bílstjórasæti hjá snjódeildinni.
Það er ekki óskastaða flugmanna þegar dekkin verða skyndilega loftlaus. Óhappið í Keflavík endaði sem betur fer vel.