Bíll útaf á brautinni og brotist inní báta
Það hefur verið töluvert annríki hjá lögreglunni í Keflavík í dag. Í morgun, rétt fyrir kl. 10:00, ók bíll útaf á Reykjanesbrautinni og er talið að mikil bleyta á brautinni hafi verið orsök slyssins. Engin meiðsli urðu á fólki en bifreiðin skemmdist talsvert. Þá var brotist inn í tvo báta sem voru í viðgerð í Skipasmíðastöð Njarðvíkur um tólf leytið í dag og þaðan stolið tölvum og DVD-spilurum. Einnig var farið inn í lyfjaskáp sem var um borð í bátnum. Að sögn lögreglunnar í Keflavík er málið í rannsókn en ekki er vitað hver var þarna að verki.
Lögreglan þurfti einnig að stöðva umferð á Reykjanesbrautinni í morgun á meðan að slökkvilið hreinsaði olíu af veginum en brautin var lokuð í um 25 mínútur vegna þessa. Það er því óhætt að segja að lögreglan hafi átt í nógu að snúast í dag. Hvort það sé veðrið sem fari svo illa í fólk skal ósagt látið en það hefur verið með verra móti í dag á Suðurnesjunum.
Lögreglan þurfti einnig að stöðva umferð á Reykjanesbrautinni í morgun á meðan að slökkvilið hreinsaði olíu af veginum en brautin var lokuð í um 25 mínútur vegna þessa. Það er því óhætt að segja að lögreglan hafi átt í nógu að snúast í dag. Hvort það sé veðrið sem fari svo illa í fólk skal ósagt látið en það hefur verið með verra móti í dag á Suðurnesjunum.