Bílaverkstæði gjörónýtt eftir gassprengingu
Bílaverkstæði í Njarðvík gjöreyðilagðist í eldi eftir gasspreningu rétt fyrir klukkan tólf á hádegi á laugardag. Tveir piltar voru inni á verkstæðinu þegar atburðurinn átti sér stað.Ljóst þykir að gasleki varð sem neisti hefur komist í með þeim afleiðingum að mikil sprenging varð og í kjölfarið mikill eldsvoði. Ástæður gaslekans eru ekki kunnar en slökkviliðsmenn fundu tvo gaskúta fyrir gasgrill inni í brunnu húsinu. Kútana má sjá á ljósmyndinni hér að neðan.Jóhann Viðar Jóhannsson sem er með vélaverkstæði við hliðina varð vitni að atburðinum og segist hafa heyrt feikna mikla sprengingu svo nötraði í öllu. „Ég var í símanum þegar ég heyrði mikla sprengingu og sá hurð fljúga út á plan. Síðan komu tveir strákar hlaupandi yfir til mín úr verkstæðinu og þá hringdi ég í 112“, segir Jóhann. Sjúkrabílar komu fljótt og fluttu piltana á sjúkrahús en þeir eru talsvert slasaðir. Jóhann segir að annar þeirra hafi verið með mikil brunasár.Jón Guðlaugsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja segir að í kjölfar sprengingarinnar hafi orðið mikill eldur og reykur. Góðar brunavarnir hafi komið í veg fyrir að eldurinn breiddist út í næstu fyrirtæki sitt hvoru megin en steyptir veggir eru á milli hólfa í húsinu sem er iðnaðarhús við Fitjabakka 1 í Njarðvík. Fjórir aðilar eru með aðstöðu í húsinu. Slökkviliði tókst fljótt að ná tökum á eldinum en mikinn reyk lagði yfir nágrennið frá húsinu á meðan slökkviliðsmenn börðust við eldinn. Jón Guðlaugsson segir að hugsanlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir svona mikið tjón ef þrír vakthafandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn hafi ekki þurft að fara með slasaða af vettvangi. Því hafi verið nauðsynlegt að kalla út varalið og tafði það björgunaraðgerðir í einhvern tíma.Verkstæðið heitir Bílarétting Sævars Péturssonar og ljóst er að mikið verk er framundan svo hefja megi starfsemi þar á ný.Mynd frá slökkvistarfi á laugardag. Gaskútarnir tveir sem slökkviliðsmenn fundu inni í húsinu komnir út.