Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bílanaust á betri stað
Mánudagur 23. maí 2005 kl. 11:31

Bílanaust á betri stað

Ólafur Geir Jónsson, þáttastjórnandi á sjónvarpsstöðinni Sirkus og fyrrum Herra Ísland, er ósáttur við Víkurfréttir að hafa birt af honum mynd þar sem hann ber flösku að vörum sínum í tengslum við frétt um að hann hafi verið sviptur titlinum Herra Ísland 2005. Þó var ekki eins og myndin hafi verið tekin með falinni myndavél, því um var að ræða ljósmynd sem var aðalmynd á vefsíðu hans, www.splash.is. Vefsíðunni hefur nú verið breytt. Ólafur Geir upplýsir í bréfi til Víkurfrétta að það hafi verið hjálpartæki ástarlífsins og blogg um daginn og veginn sem hafi kostað hann titilinn „Herra Ísland.“

Í tilkynningu frá Fegurðarsamkeppni Íslands sagði: „Heilbrigt líferni og reglusemi er m.a. þættir sem skipta miklu, þar sem gera má ráð fyrir að Herra Ísland sé fyrirmynd ungmenna í landinu, en eins og segir m.a. orðrétt í samningi sem Herra Ísland skrifar undir  „ég geri mér fulla grein fyrir því að hegðun mín skuli ávallt vera til sóma fyrir vandaða ímynd keppninnar...“.
Ólafur Geir hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem keppnin gerir til Herra Íslands ár hvert, en við val hans er leitast við að velja fulltrúa sem er keppninni til sóma bæði hérlendis og erlendis.“
Tilvitnun lýkur.

Á bloggsíðu þar sem Óli Geir skrifar innlegg, segir: „Ég er ekki sáttur við þessa mynd. Þið eruð sterkasti fjölmiðilinn hérna í bænum og með birtingunni dragið þið ályktanir af hverju ég var sviptur. Ég átti von á meiri stuðningi í mínum heimabæ en þetta“.

Nú er það þannig að þegar menn hljóta titla eins og „Herra Ísland“ eða eru þáttastjórnendur í ljósvakamiðlum þá verða þeir svona nokkurs konar „þjóðareign“ og koma fram í samræmi við það. Óli Geir „kom fram“ á eigin vefsíðu sem jafnframt er vefsíða sjónvarpsþáttar hans á mynd þar sem hann og fleiri voru með flöskur á lofti. Myndin var meira að segja efsta mynd á vefsíðunni og „stór“ á vefvísu. Það var því ekki hægt að álykta annað en sú mynd væri ein af „opinberu“ myndunum af þáttastjórnandanum  og mynd sem hann hlaut að vera ánægður með, fyrst henni var flaggað á þann hátt sem var. Það var ástæðan fyrir því að Víkurfréttir kusu að nota þá mynd. Ólafur Geir hafði sjálfur sett hana ofar öllum öðrum.

Meðfylgjandi er skjámynd af vefsíðunni www.splash.is þar sem myndin er í aðalhlutverki (sjá efst á síðunni).

Það er hins vegar ekki ætlunin að skrifa langlokur um ungan mann sem er að stíga sín fyrstu spor í fjölmiðlum. Það er ekki okkar að taka afstöðu með eða á móti í málinu. Við höfum enga afstöðu tekið í málinu. Frétt okkar var alfarið byggð á fréttatilkynningu Fegurðarsamkeppni Íslands og tekin orðrétt af vef Mogga með tilvitnun í þann miðil. Myndin var tekin af vefsíðu Ólafs Geirs sjálfs. Hann hefur einnig fengið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri hér á vef Víkurfrétta.

Einhverstaðar var sagt: „Það getur verið kalt á toppnum“ og það blása greinilega vindar um Óla Geir þessa dagana en þá lægir örugglega fljótt og allir hafa gleymt hvað átti sér stað innan fárra vikna. Hver man til dæmis hver var Herra Ísland í fyrra eða árið þar áður? Haltu áfram á þinni braut drengur. Þú ert að blása lífi í fjölbreytileika sjónvarpsins, þó svo ekki séu allir sáttir við það sem þið bræður eruð að gera í þættinum. Þú ert alla vega laus allra mála sem Herra Ísland þannig að það ætti ekki að aftra þér í dagskrárgerðinni.

 

Myndir: (efst) Skjámynd af vefnum splash.is. (mið) Frá úrslitum Herra Ísland 2005. (neðst) Kynningarefni fyrir Herra Ísland 2005.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024