Bilaður rofi í Suðurnesjalínu 1 sem ekki er hægt að laga
- erfitt að sinna viðhaldi á rofanum vegna mikilvægis línunnar
	Um klukkan níu í gærkvöldi sló eldingu niður í Suðurnesjalínu 1 og rafmagn fór af öllum Reykjanesskaganum með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa og fyrirtæki. Meðal annars var ekki hægt að afhenda rafmagn til Keflavíkurflugvallar og virkjanir á Reykjanesi leystu út í kjölfarið sem leiddi til algjörs rafmagnsleysis á svæðinu.
	
	Strax var farið í að koma rafmagni á aftur. Rafmagn var komið á stóran hluta svæðisins eftir um það bil klukkutíma, segir í tilkynningu Landsnets. Stærstur hluti Reykjanesbæjar, Garður og Sandgerði voru hins vegar án rafmagns í tvær klukkustundir.
	
	Vegna bilunar í aflrofa fyrir Suðurnesjalínu 1 stóð rafmagnsleysið lengur en ella. Erfitt hefur reynst að sinna viðhaldi á rofanum vegna mikilvægis línunnar en ekki hefur verið hægt að taka línuna út þar sem Suðurnesjalína 1 er eina línan sem tengir Suðurnes við meginflutningskerfið.

 
	
			

 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				