Bikaruppgjör á sunnudag
Varla hefur farið framhjá neinum körfuboltaáhugamanni að Bikarúrslit KKÍ og Lýsingar fara fram á sunnudaginn kemur. Þar munu Njarðvíkingar mæta Fjölni í karlaflokki og Grindavík mætir Haukum í kvennaleiknum.
Bikarúrslitin í körfuknattleik eru jafnan stærstu einstöku leikir hvers árs og þar hafa margar goðsagnirnar orðið til. Oft og tíðum eru leikir þessir vettvangur hetjudáða þar sem einstaklingar eða sterkar liðsheildir skrá nafn sitt í íslenska íþróttasögu.
Karlalið hafa keppt um þennan heiður frá árinu 1970 og hefur orðið áherslubreyting í valdahlutföllum síðan þá. Fyrstu 15 árin voru Reykjavíkurliðin algerlega einráð þar sem KR-ingar báru höfuð og herðar yfir önnur lið. Þeir sigruðu fyrstu fimm árin, en árin eftir það blönduðu Ármenningar og Valsarar sér í slaginn og Fram og ÍS unnu einu sinni hvort lið.
Um miðjan 9. áratuginn upphófst svo gullöld Suðurnesjaliðanna sem má segja að hafi staðið nær óslitið frá árinu 1984. Þá urðu Njarðvíkingar Íslandsmeistarar í fyrsta skiptið og voru í liðinu margfrægar kempur eins og Gunnar Þorvarðarson, Ísak Tómasson og Sturla Örlygsson, en þar var einnig ungur og efnilegur drengur, Teitur Örlygsson, sem átti svo sannarlega eftir að láta að sér kveða á næstu tveimur áratugum.
Njarðvíkingar unnu sinn fyrsta bikarmeistaratitil árið 1987 eftir að hafa tapað fyrstu fjórum úrslitaleikjum sínum. Þeir voru svo sannarlega komnir á bragðið og vörðu titil sinn þrisvar og heyrir til undantekninga að lið utan Suðurnesja hafi unnið síðan þá.
Á þeim 18 árum sem hafa liðið frá fyrsta titlinum hefur það einungis gerst þrisvar að bikarinn hafi dvalið utan Suðurnesja, árið 1991 (KR), 1996 (Haukar) og 2001 (ÍR).
Njarðvíkingar freista þess nú að halda þessari hefð við, en þurfa að skáka frísku liði Fjölnismanna sem hefur vakið mikla athygli í vetur.
Árið 1975 var fyrst keppt um bikarmeistaratignina í kvennaflokki og voru það lið af höfuðborgarsvæðinu sem fögnuðu sigri oftar en ekki á upphafsárunum. KR-ingar áttu góðu fylgi að fagna og sigruðu fimm sinnum á árunum 1976 til 1987. Þá rann upp tími Keflavíkurstúlkna sem unnu sinn fyrsta bikartitil árið eftir og hefur þeirra sigurganga staðið síðan. Þær hafa unnið 11 titla, síðast í fyrra, en voru slegnar óvænt út af nýliðum Hauka í undanúrslitum í ár.
Nú eru það Grindvíkingar sem Suðurnesjamenn treysta á, en þótt Grindavík hafi ekki áður hrósað sigri eru innan þeirra eru margreyndar stúlkur sem hafa hampað bikarnum eftirsótta með Keflavík og ÍS á undanförnum árum.
Hvernig sem leikirnir fara má lofa skemmtilegum og spennandi viðureignum eins og undanfarin ár og eru Körfuknattleiksáhugamenn hvattir til að mæta í Höllina og styðja sín lið.
Myndir úr safni VF