Bifreið ekið á vegrið í morgun
Bifreið var ekið á vegrið við Reykjanesbraut á móts við Vogaafleggjara í morgun. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið.
Auk þessa urðu allmörg umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Ökumaður, sem steig á bensíngjöfina í stað þess að hemla ók upp á gangstétt í Keflavík og hafnaði bifreið hans á grindverki. Þá var ekið á kyrrstæða bifreið við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Tvær bifreiðar skullu saman þegar annarri var ekið í veg fyrir hina á gatnamótum Valhallarbrautar og Suðurbrautar. Þær voru fjarlægðar með dráttarbíl. Einnig rákust tveir bílar saman á Garðsvegi. Loks slóst skófla á vinnuvél utan í rafmagnskassa og skemmdi hann, þegar stjórnandi vélarinnar vék fyrir bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.