Bíða enn niðurstöðu mótefnamælingar í Fjölni GK
Línuskipið Fjölnir GK er enn bundið við bryggju í Grindavík. Skipið átti að fara úr höfn í gærkvöldi en var kyrrsett eftir að skipverji fékk niðurstöðu úr seinni sýnatöku vegna kórónuveiru sem reyndist vera jákvæð. Skipverjinn var nýlega kominn til landsins frá útlöndum en fyrri sýnatakan hafði verið neikvæð.
Haft er eftir Aðalsteini Rúnari Friðþjófssyni, skipstjóra á Fjölni GK, á vef Fréttablaðsins að skipverjinn hafi verið nýkominn um borð þegar hann fékk niðurstöðu úr seinni skimuninni. Þá hafði maðurinn komist í snertingu við þrjá skipverja. Þeir eru núna í einangrun í skipinu og sex aðrir í sóttkví. Smitaði skipverjinn er í einangrun í Keflavík.
Hluti áhafnarinnar var ekki mættur þegar smitið kom upp og sjálfur er Aðalsteinn Rúnar í fríi. Hann vonast til að grunur þeirra um að um gamalt smit sé að ræða reynist réttur og að báturinn geti siglt úr höfn í dag, mánudag. Beðið er niðurstöðu mótefnamælingar.