Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

BÍ ítrekar kvörtun vegna takmörkunar á aðgengi fjölmiðla að hættusvæði í Grindavík
Ljósmynd/Arnar Halldórsson/Blaðamannafélag Íslands
Föstudagur 2. febrúar 2024 kl. 10:25

BÍ ítrekar kvörtun vegna takmörkunar á aðgengi fjölmiðla að hættusvæði í Grindavík

Blaðamannafélag Íslands sendi lögreglustjóranum á Suðurnesjum í gær ítrekun á kvörtun félagsins vegna takmörkunar á aðgengi fjölmiðla að hættusvæði í og umhverfis Grindavík. 

Þann 22. nóvember sl. óskaði Blaðamannafélag Íslands eftir því við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum að fyrirmæli embættisins til fjölmiðla um aðgang þeirra að hættusvæðinu í og umhverfis Grindavík yrðu framvegis sett fram með skriflegum hætti og birt opinberlega þannig að allir félagsmenn félagsins gætu kynnt sér efni þeirra fyrirfram. Jafnframt var þess óskað að í slíkum fyrirmælum yrði tilgreint með nægilega skýrum hætti til hvaða svæðis þau tækju, hver væri  gildistími þeirra og hvernig aðgangi fjölmiðla að svæðinu skyldi nánar tiltekið háttað þann tíma. Óvissa hafi ríkt um ákvarðanirnar, sem samræmist ekki því tjáningarfrelsi fjölmiðla og almennings sem tryggt er í stjórnarskrá. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í erindinu, sem sent var í gær, segir jafnframt:

Um leið og ítrekuð er sú ósk sem fram kemur í erindi félagsins frá 22. nóvember 2023 er hér með óskað eftir því að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum láti félaginu í té eftirfarandi gögn og upplýsingar:

1. Afrit af þeim ákvörðunum sem embættið kann að hafa tekið um aðgang fjölmiðla að hættusvæðinu í og umhverfis Grindavík frá og með 11. nóvember 2023.

2. Upplýsingar um þau sjónarmið sem lágu umræddum ákvörðunum til grundvallar að því leyti sem þær koma ekki fram í ákvörðunum sjálfum, þ.m.t. upplýsingar um hvort við töku umræddra ákvarðana hafi verið tekið tillit til þess hlutverks sem fjölmiðlar gegna í lýðræðissamfélagi við miðlun upplýsinga til almennings m.a. um náttúruhamfarir og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

Þess er óskað að umbeðnar upplýsingar og gögn berist undirrituðum lögmanni f.h. Blaðamannafélags Íslands eigi síðar en 7. febrúar nk. Tekið skal fram í því sambandi að forsenda þess að félagið geti gætt hagsmuna félagsmanna sinna og lagt mat á hvort ákvarðanir lögreglustjórans á Suðurnesjum gangi á rétt þeirra er sú að fyrir liggi með skýrum hætti hvert sé efni hlutaðeigandi ákvarðana og hvaða sjónarmið búi þeim að baki.

Blaðamenn án landamæra gagnrýna einnig takmarkanir

Þá hafa samtökin Blaðamenn án landamæra, RSF, sent frá sér yfirlýsingu þar sem takmörkunum blaðamanna að svæðinu er mótmælt og yfirvöld hvött til þess að takmarkanir séu í samræmi við tilefnið, þær séu gegnsæjar og ákvörðun um þær séu teknar í samráði við fulltrúa blaðamanna. Sjá færslu RSF á samfélagsmiðlinum X:

#Iceland: Journalists access to the volcanic eruption area is severely restricted. RSF urges the authorities to ensure that restrictions are proportionate, transparent & taken after consultation with media representatives. The #RightToInformation must always be guaranteed. pic.twitter.com/z58UBeClx8

— RSF (@RSF_inter) January 26, 2024