Betri þjónusta Bílaleigu Flugleiða Hertz
Bílaleiga Flugleiða Hertz hefur tekið nýja afgreiðslu í notkun, í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Afgreiðslan er gegnt tollhliði komufarþega og er það fyrsta sem blasir við ferðamönnum sem koma hingað til lands. Hin nýja aðstaða bílaleigunnar mun auka möguleika fyrirtækisins á að veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu, enda er hún mun rúmbetri en hin fyrri.Bílaleigan var stofnuð árið 1971 og lengst af rekin sem deild innan Flugleiða. Það breyttist 1. janúar sl. þegar fyrirtækið varð dótturfélag Flugleiða. Bílaleiga Flugleiða Hertz er nú á níu stöðum á landinu; í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, á varnarsvæði bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli, við Öskjuhlíð í Reykjavík, á Reykjavíkurflugvelli, á Ísafirði, Akureyri, Egilstöðum, Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Bílaleiga Flugleiða Hertz hefur jafnan lagt mikla áherslu á öryggi viðskiptavina sinna og býður aðeins upp á nýja bíla í besta ástandi. Í bílaflota leigunnar eru 17 mismundandi tegundir bifreiða og geta viðskiptavinir fyrirtækisins valið um fólksbíla, jeppa, húsbíla eða 9 manna bíla.Bílaleigan hefur nú stækkað þjónusturými sitt á Keflavíkurflugvelli um 30% og er afgreiðslan nú 33 fermetrar að stærð. Hönnuður hennar er Auður Vilhjálmsdóttir hjá Teiknistofu Garðars Halldórssonar.Forsvarsmenn fyrirtækisins vonast til að með þessu verði betur komið til móts við þarfir og væntingar viðskiptavina, en nú verður hægt að afgreiða mun fleiri í senn, en áður var mögulegt.