Betri lestrarárangur í Reykjanesbæ en í Reykjavík og leikskólar til fyrirmyndar
Lestrarskimun í skólum í Reykjanesbæ hefur skilað góðum niðurstöðum undanfarin ár og árangur betri en í skólum í Reykjavík.
Baldur Guðmundsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og formaður fræðsluráðs greindi á bæjarstjórnarfundi frá niðurstöðum í lestrarskimun og læsiskönnun sem hefur verið framkvæmd með markvissum hætti í 2. bekk frá árinu 2004. Síðustu fimm árin hefur verið jákvæður stígandi í niðurstöðunum og er meðalárangur í skólum í Reykjanesbæ 75,6% sem er yfir meðaltali skólanna í Reykjavík en þar er árangurinn 71,7%.
Baldur greindi einnig frá því að þrír leikskólar í Reykjanesbæ, Tjarnarsel, Holt og Völlur, hafi verið valdir í hóp tíu leikskóla hér á landi sem þættu til fyrirmyndar hvað varðar málörvun barna og og lestrarhvetjandi umhverfi.
Fjöldi barna af erlendum uppruna hefur haldist í skólum bæjarins og nú eru 156 börn að læra íslensku sem annað tungumál og eru tungumálin 14 talsins.
Reykingar og áfengisdrykkja í efstu bekkjum grunnskóla eru minni í Reykjanesbæ en á öðrum stöðum á landinu og sagði Baldur þetta jákvæðar fréttir.
„Það er því margt sem við getum verið afar hreykin af í skólastarfinu hér í bænum. Mikið þróunarstarf er unnið í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar þannig að eftir er tekið og hafði starfsfólk Menntamálaráðuneytisins sérstaklega orð á því hver góður starfsandi ríkir í skólunum í þessu erfiða árferði,“ sagði Baldur.