Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Besta vínbúðin fjórða árið í röð
Starfsfólk Vínbúðarinnar í Reykjanesbæ. Aftari röð frá vinstri: Kristófer, Bjarni Reyr, Ævar Þór, Friðbert og Björgvin. Neðri röð frá vinstri: Guðrún, Rannveig, Guðveig, Laufey og Jóhann Gunnar.
Föstudagur 22. apríl 2016 kl. 06:15

Besta vínbúðin fjórða árið í röð

Vínbúðin í Reykjanesbæ var valin besta vínbúðin á Íslandi árið 2015. Um þetta var tilkynnt á ársfundi ÁTVR fyrr á árinu. Árið 2012 var Vínbúin í Reykjanesbæ í fyrsta sinn valin sú besta á landinu og hefur síðan þá verið valin á hverju ári. Að sögn Rannveigar Ævarsdóttur, verslunarstjóra, er gaman að ná svo góðum árangri fjögur ár í röð. Hún segir lykilinn að árangrinum helst felast í því hve lítil starfsmannavelta sé. „Við erum einstaklega góður og samheldinn hópur. Fólk hefur hætt og nýtt komið í staðinn, eins og gengur og gerist, en við höfum verið heppin að fá til okkar fólk sem hefur smellpassað í hópinn. Það skilar sér í góðum anda og góðri þjónustu,“ segir hún. Hjá Vínbúðinni í Reykjanesbæ starfa á milli tíu og tólf starfsmenn samtals, en flestir þegar mest er að gera á föstudögum og laugardögum.

Á Íslandi eru fimmtíu vínbúðir og þegar verið er að velja þá bestu er búðunum skipt í tvo hópa, minni og stærri Vínbúðir og ein í hvorum flokki er Vínbúð ársins. Vínbúðin í Reykjanesbæ er í flokki stærri vínbúða eins og allar vínbúðir á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og Akureyri. Til þess að ná þessum árangri þarf Vínbúðin bæði að ná góðum árangri í ákveðnum rekstrarþáttum ásamt því að mæld er ánægja viðskiptavina og viðmót starfsfólks. Rannveig segir þau hjá Vínbúðinni í Reykjanesbæ leggja mikla áherslu á að framfylgja stefnu um samfélagslega ábyrgð, meðal annars með því að spyrja ungt fólk um skilríki til að koma í veg fyrir að fólk undir 20 ára aldri geti verslað áfengi.

Stór hluti af starfinu í Vínbúðinni er meðal annars ráðgjöf um val á víni með mat. „Ég get sagt með stolti að nær allir starfsmenn okkar hafa farið í gegnum Vínskólann hjá ÁTVR og lært almennt um vín, hvaðan þau koma og hver eru helstu einkenni þeirra eftir löndum og héruðum,“ segir Rannveig og er greinilega stolt af sínu fólki og þessum frábæra árangri.​

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024