Besta kríuvarpið í Garði í mörg ár
Kríuvarpið í Garði eru að takast mjög vel á þessu sumri. Útbreiðslan á varpinu er meiri en áður og feitir og pattaralegir ungar eru merki um að þeir fái nóg að éta.
Gunnar Þór Hallgrímsson hjá Náttúrustofu Reykjaness var nýkominn úr könnunarleiðangri um varplöndin í Garði, þegar Víkurfréttir höfðu samband við hann, og var mjög ánægður með það sem hann sá. Hann segir varpið núna vera að skila besta árangri síðan 2004. Það hafi reyndar byrjað seint og aðstæður hjá kríunni í vor hafi verið skelfilegar. Hins vegar rættist úr sumrinu fyrir kríuna og ætið í Garðsjónum virðist henta kríunni fullkomlega.
Alvarlegur skortur er á fæðu hjá kríunni á Snæfellsnesi fimmta árið í röð, segir í fréttum RÚV í dag. Lítið er um sandsíli og hefur fuglinn því borið hrognkelsaseyði, hornsíli, fiðrildi og orma í ungana sem er verri fæða og erfiðara að melta. Fuglar eru misvel gerðir til að takast á við fæðuskort. Sumir sjófuglar geta fyllt magann allan daginn úti á sjó og komið heim í lok dags með góða magafylli sem þeir æla upp í ungana. Krían hinsvegar tekur bara lítið í einu og getur þar að auki ekki kafað eins og svartfuglinn.
Gunnar Þór mun á næstu dögum kanna kríuvarp bæði á Reykjanesi og Vatnsleysuströnd og bera það saman við það sem hann er að sjá bæði í Garði og Sandgerði.
Myndir: Kría og kríuungar á Vatnsleysuströnd um sl. helgi. VF-myndir: Hilmar Bragi