Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 6. maí 2003 kl. 14:02

Besta fyrirtækið og frumlegasta viðskiptahugmyndin er í FS

Local er fyrirtæki sem sex nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja stofnuðu í nýjum áfanga sem heitir Fyrirtækjasmiðjan. Local er markaðsfyrirtæki sem veitir framhaldsskólanemum ódýrt vöruverð hjá völdum fyrirtækjum. Á uppskeruhátið námskeiðsins fékk Local tvenn verðlaun af fjórum, frumlegasta viðskiptahugmyndin og besta fyrirtækið.Fyrirtækjasmiðjan er námskeið þar sem nemendur stofna og reka fyrirtæki í 13 vikur. Námskeiðið er unnið í samstarfi við alþjóðasamtökin Junior Achievement. Á námskeiðinu var stofnað til 9 fyrirtækja í þremur skólum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Borgarholtsskóla og Verzlunarskóla Íslands. Nemendur voru í heildina mjög ánægðir með námskeiðið og sérstaklega hversu raunverulegt verkefnið var. Mörg fyrirtækin skiluðu miklum rekstrarhagnaði, önnur minni eða engum. Aðalatriðið var að gefa innsýn í hvaða samverkandi þættir þurfa að koma til, til þess að góður árangur náist og er greinilegt að sá árangur náðist vel. Það sem flestum kom á óvart var hversu utanaðkomandi þættir eins og tafir á afhendingu frá birgjum og vanskil skuldunauta geta haft ótrúlega mikil áhrif á gang mála. Nokkuð sem sjaldnast kemur fram á skriflegum viðskiptaáætlunum.

Verkefninu lauk síðan í apríl en þá var uppskeruhátíð haldin af Sjóvá Almennum sem er einn af stofnendum JA. Aðstandendur JA eru sérlega ánægðir með góðan árangur á þessu fyrsta námskeiði og má geta þess að allir skólarnir staðfestu áframhaldandi þátttöku sína í verkefninu.

Veittar voru viðurkenningar í fjórum flokkum. B´or´gó úr Borgarholtsskóla var valin markvissasta áætlunin og Viðarós úr Verzlunarskóla Íslands besta viðskiptaáætlunin. Það var hins vegar Local úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem fékk viðurkenningu sem frumlegasta viðskiptahugmyndin og var jafnframt valið besta fyrirtækið. Local seldu fyrirtækjum í Reykjanesbæ auglýsingar og gáfu út veglegt auglýsingablað. Létu einnig útbúa afsláttarkort sem dreift var ásamt blaðinu til nemenda í FS og hvöttu þá, með góðum árangri, til viðskipta við viðkomandi fyrirtæki í heimabæ sínum.

Þeir nemendur sem standa að baki Local eru Guðmundur Árnason forstjóri, Bjarni Þór Einarsson framkvæmdastjóri framleiðslusviðs, Haukur Skúlason starfsmannastjóri, Kristinn Agnarsson fjármálastjóri, Björgvin Árnason bókhald og Runólfur Þór Sanders markaðsstjóri. Fjölbrautaskóli Suðurnesja óskar þessum gallvösku ungu drengjum innilega til hamingju með sigurinn. Framtak þeirra ætti að vera öðrum til fyrirmyndar og sýnir fram á að það þarf ekki endilega að vera í flottum skóla í Reykjavík til þess að vinna til verðlauna sem þessa. Góðar viðskiptahugmyndir geta sprottið upp hvar sem er á landinu. Spurningin er: Hefur þú þann kjark og það þor sem þarf til þess að fylgja hugmyndinni þinni eftir?

Hildur Bæringsdóttir
Leiðbeinandi Fyrirtækjasmiðjunnar
Fjölbrautaskóli Suðurnesja
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024