Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bessastaðir eru stoppistöð fólksins - sagði forsetinn sem hóf kosningabaráttuna í Grindavík
Þriðjudagur 15. maí 2012 kl. 11:07

Bessastaðir eru stoppistöð fólksins - sagði forsetinn sem hóf kosningabaráttuna í Grindavík



Ólafur Ragnar Grímsson, forseta Íslands og Dorrit konu hans var vel fagnað þegar þau hófu kosningaherferð sína í Grindavík í gær. Fjölmenni mætti í Salthúsið þar sem Grindvíkingum var boðið í afmæliskaffi en forsetinn varð 69 ára í gær en einnig áttu hjónin brúðkaupsafmæli.

„Það er alltaf gott að koma hingað til Grindavíkur. Hér hef ég fundið á vissan hátt þær rætur sem ég á frá Vestfjörðum þegar ég byrjaði að vinna þar í saltfiski og skreið tíu ára gamall. Upplifa að mörgu leyti svipaða menningu og þar. Hér eigum við marga vini og hingað munum við ávallt koma hvort sem ég verð forseti áfram eða ekki,“ sagði Ólafur Ragnar meðal annars.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ólafur og Dorrit heilsuðu upp á afmælisgesti. Margir Grindvíkingar vildu fá mynd af sér með forsetanum og forsetafrúin heillaði gesti upp úr skónum með sinni skemmtilegu framkomu. Fyrr um daginn heimsóttu forsetahjónin mörg fyrirtæki í bæjarfélaginu.

Ólafur Ragnar sagði í ræðu sinni vona að forsetakosningarnar myndu snúast um málefni en yrðu ekki fegurðarsamkeppni.

„Við Dorrit ætlum að fara um landið í þessari kosningabaráttu undir heitinum „Samræða um allt land“, til að gefa fólki kost á að ræða við okkur og ekki síður til að árétta það hvað er í húfi í þessum forsetakosningum. Forsetaembættið er fyrst og fremst kjölfesta í okkar stjórnskipun. Forsetinn er sá fulltrúi sem fólk kýs til að taka lykilákvarðanir á örlagatímum. Ég hef orðað það svo að Bessastaðir eru síðasta stoppistöðin sem fólkið í landinu hefur ef það vill fá málin í sínar hendur, ef það er ekki sátt við það sem ríkisstjórn eða Alþingi hafa ákveðið. Við sáum það í Icesave málinu hvað það var örlagaríkt“.

Fleiri myndir úr Grindavíkurheimsókn forsetans má sjá hér.

Ólafur Ragnar heilsaði upp á unga sem aldna.

Hér eru forsetahjónin með Helgu Björgu Steinþórsdóttur en forsetafrúin hefur verið einlægur aðdáandi Mýr design fatnaðar sem Helga hefur hannað.

Fjölmenni fagnaði forsetahjónunum í Salthúsinu.