Berjumst ekki um sneiðarnar - stækkum heldur kökuna
-Líflegir íbúafundir um ferðamál á Reykjanesi
Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes Unesco Global Geopark stóðu fyrir fundaröð á Suðurnesjum þar sem ferðamál á svæðinu voru á dagskrá. Íbúar létu sitt ekki eftir liggja og mættu vel á fundina til þess að fræðast um verkefni sem eru í vinnslu og framtíðina í þessum málaflokki. Líflegar umræður sköpuðust á fundunum og ljóst að ferðamálin eru heimamönnum hugleikin.
Samkvæmt könnunum Ferðamálastofu síðustu ár eru íbúar á Suðurnesjum jákvæðari gagnvart ferðaþjónustu en gengur og gerist á landinu. „Verkefnið okkar er að halda þessu jákvæða viðhorfi á lofti og það gerum við ekki nema með stuðningi íbúa og sveitafélaga,“ sagði Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjanes í samtali við VF.
Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum komst vel að orði á fjölmennum fundi í Vogum þar sem hann sagði að við ættum ekki vera að berjast um sneiðarnar heldur stefna að því að stækka kökuna saman. Það varð síðan rauður þráður í fundunum.
Ferðaþjónustuaðilar voru áhugasamir um Reykjanes Geopark og virði vörumerkisins Unesco fyrir fyrirtæki á Reykjanesi. Reykjanes Geopark gengur í gegnum skoðunarferli í sumar þar sem til stendur að endurnýja aðild jarðvangsins að Unesco Global Geopark netverkinu.
Íbúar hvöttu jafnframt sveitafélög til þess að kynna það sem er í boði í bæjunum, sundlaugar og söfn voru nefndar þar sem dæmi. Aðstöðuleysi úti á Reykjanestá var einnig til umræðu eins sem það litaði fundina að fólki finnst halla á svæðið þegar kemur að stuðningi ríkisins í ferðamálum.
Frá fundinum í Vogum.