Bergur Hinriksson í Madrid: Í hringiðu mótmæla eftir sprengjuárásir
Eins og við greindum frá í dag býr Bergur Hinriksson úr Grindavík í miðborg Madridar, skammt frá þar sem sprengjutilræði voru framin í morgun. Bergur er í kvikmyndagerðarnámi og var því fljótur til með myndavélina í dag og í kvöld og hefur fest atburðarás dagsins á filmu. Meðfylgjandi þessari frétt eru nokkrar myndir sem Bergur tók í miðborginni í dag og einnig í kvöld þar sem mikil mótmæli hafa átt sér stað.
Í Víkurfréttum í dag sagði Bergur: „Ég var á Ráðhústorginu rétt áðan og þar var mikill hiti í fólki sem er búið að fá nóg af ETA og þessum eilífu sprengingum sem samtökin hafa staðið að“.
Á hverjum morgni er Bergur vanur því að taka lestina í skólann en hann átti ekki að mæta fyrr en á hádegi í dag. „Lestin sem ég tek venjulega í skólann er á sömu línu og ein sprengingin varð á. Ég labbaði í skólann í morgun því að sjálfsögðu liggur allt lestarkerfið hér niðri.“
Bergur segir að í morgun þegar hann vaknaði hafi hann furðað sig á því að lítið af fólki var í verslunum sem hann býr fyrir ofan. „Það eru vefnaðarvörubúðir fyrir neðan okkur og þegar ég vaknaði þá var ekkert af fólki í búðunum sem er mjög óvenjulegt,“ segir Bergur en hringt var til eiginkonu hans frá skólanum hennar og tilkynnt að skólanum væri aflýst vegna sprenginganna.
„Það er allt miklu rólegra heldur en í morgun og það eru löggur á hverju horni. En maður skynjar mikla reiði hjá íbúum. Forsætisráðherra Spánar var í viðtali á einni sjónvarpsstöðinni fyrir stundu og hann telur að ETA hafi staðið fyrir árásunum. Það eru flestir sem kenna ETA um þessar árásir.“ Að sögn Bergs herma nýjustu fregnir að 177 hafi látið lífið og að minnsta kosti 600 manns hafi særst.
Skoða myndasyrpu frá Madrid - smella hér!
VF-myndir: Bergur Hinriksson