Bergraf sendir 15 rafvirkja til Reyðarfjarðar
Alls munu fjórtán til fimmtán rafvirkjar frá Suðurnesjafyrirtækinu Bergrafi ehf. fá vinnu við uppbyggingu kersmiðju Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði fram í miðjan maí á þessu ári. Fyrsti hópurinn, sex rafvirkjar, fór austur í gærmorgun.
Bergraf ehf. er undirverktaki hjá JÁ VERK sem tekur þátt í byggingu nýrrar kersmiðju við álverið á Reyðarfirði. Framkvæmdum þar miðar vel en tæplega hundrað manns vinna við bygginguna. Kostnaður vegna framkvæmdanna er áætlaður nálægt fjórum milljörðum króna. Verkþáttur Bergrafs ehf. er upp á rúmar 100 milljónir króna.
Starfsemi kersmiðjunnar á að hefjast í apríl á næsta ári eftir rúmlega 17 mánaða framkvæmdatíma, en fyrsta skóflustungan var tekin í byrjun nóvember á síðasta ári. Í kringum 60 manns munu vinna í kersmiðjunni. Flatarmál kersmiðjunnar er rúmlega 4000 fermetrar en hún skiptist í þrjá hluta, kerfóðrunarbyggingu, kerbrotabyggingu og skrifstofubyggingu. Hægt verður að endurfóðra þrjú ker í einu og mestu afköst verða tvö og hálft ker á viku.
Að sögn Reynis Ragnarssonar, framkvæmdastjóra Bergrafs, verða rafvirkjar fyrirtækisins alls 14-15 þegar mest verður. Gert er ráð fyrir að verkið standi fram í miðjan maí. Hann segir ánægjulegt að fyrirtækið hafi fengið þetta verk fyrir austan, enda sé aftur farið að hægja á verkefnum hér á Suðurnesjum en undanfarið hefur verið ágæt verkefnastaða.
„Það er gott fyrir okkar menn að fá vinnu við álverið á Reyðarfirði meðan ekkert er að gerast í Helguvík,“ segir Reynir, en í Bergrafi sameinuðust nokkrir rafverktakar á Suðurnesjum til að vinna að raflagnaverkefnum fyrir álver Norðuráls í Helguvík.
Mannskapurinn frá Bergrafi ehf. mun búa á gistiheimili á Reyðarfirði á meðan á framkvæmdum fyrir austan mun standa og því gott dæmi um það hvaða áhrif stórar framkvæmdir geta haft á nærsamfélagið á þeim stað þar sem unnið er að framkvæmdum.