Bergraf breytir rafkerfum fyrir 330 milljónir
Suðurnesjafyrirtækið Bergraf var lægst í útboði á breytingum á rafkerfi á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Samningurinn er við Landhelgisgæslu Íslands og hljóðar upp á 336 milljónir króna og er verktími út árið 2014.
Um er að ræða umfangsmiklar og atvinnuskapandi framkvæmdir á svæðinu en um 30 manns munu koma að verkefninu sem hefur umtalsverð margfeldisáhrif. Verkefnið, sem felst í að breyta rafkerfum á öryggissvæðinu, hófst árið 2009 og er vinnu við fyrstu fimm áfangana lokið. Kostnaður við þau verkefni var um 200 milljónir. Ráðgert er að bjóða út sjöunda áfanga í mars. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur umsjón með framkvæmdunum.
Bergraf ehf. bauð í þetta verk ásamt ÍAV hf., Ístaki hf. og RST. Net ehf., eftir að þessi fyrirtæki voru valin í forvali til að bjóða í verkið. Tilboð Bergrafs var 101,6% af kostnaðaráætlun. Að Bergrafi standa, auk Ragnars, fyrirtækin Nesraf, Rafholt og SI Raflagnir.
Að sögn Reynis Þórs Ragnarssonar, framkvæmdastjóra Bergrafs, felst verkefnið í að breyta raflögnum og lagna- og loftræstikerfum í húsi Landhelgisgæslunnar, byggingu 130, á Keflavíkurflugvelli.
„Undirbúningur er þegar hafinn og framkvæmdir á verkstað hefjast á næstu dögum,“ sagði Reynir í samtali við VF.