Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Berglind ráðin framkvæmdastjóri Keilis
Miðvikudagur 21. ágúst 2024 kl. 16:52

Berglind ráðin framkvæmdastjóri Keilis

Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar Keilis, hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Keilis eftir að Nanna Traustadóttir hvarf til annarra starfa. Berglind hefur starfað í Keili síðustu átta ár sem forstöðumaður Háskólabrúar en miklar breytingar urðu á starfsemi skólans í vor þegar hluti hennar fluttist yfir til Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Berglind hefur lokið B.Ed. gráðu í kennslufræðum frá Háskóla Íslands. Auk þess hefur Berglind lokið viðbótardiplómu í menntastjórnun og matsfræði frá Háskóla Íslands og er á lokametrunum að ljúka við M.Ed. gráðu í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Berglind býr yfir fjölbreyttri reynslu í skólastarfi og hefur jafnframt stjórnunarreynslu. Hún starfaði sem umsjónarkennari og fagstjóri í grunnskóla í 10 ár en hefur frá árinu 2016 sinnt starfi forstöðumanns Háskólabrúar Keilis. Í starfi forstöðumanns Háskólabrúar sá hún um faglega þætti skólastarfsins sem og rekstur, mannauðsmál og almenna stjórnun innan námsleiðarinnar. 
„Það var samstaða innan stjórnar að bjóða Berglindi að taka við starfi framkvæmdastjóra en hún er öllum hnútum kunnug í rekstri skólans og hefur allt til brunns að bera til að leiða starf skólans í náinni framtíð,“ segir Guðmundur Axel Hansen, formaður stjórnar Keilis.

„Keilir hefur verið stór hluti af því að móta mig sem manneskju og starf mitt innan Keilis síðastliðin 8 ár hefur gefið mér víðtæka reynslu sem hefur styrkt mig sem fagmanneskju og stjórnanda. Hér starfar fólk af mikilli hugsjón og leggur sig fram að veita framúrskarandi þjónustu og sinna nemendum af alúð. Breytingar á starfsemi Keilis síðastliðið ár hafa verið krefjandi en ég hef mikla trú á að sú starfsemi sem eftir stendur eigi eftir að halda áfram að vaxa og dafna. Ég mun leggja mig fram við verkefnin stór sem smá og síðast en ekki síst hlúa að þeim mannauði sem starfar í Keili sem og okkar nemendum. Í starfi framkvæmdastjóra Keilis sé ég fyrst og fremst fyrir mér að skapa samheldni og starfsumhverfi þar sem starfsfólk blómstrar í sínu starfi sem hefur svo áfram áhrif á okkar nemendur og orðspor Keilis. Huga þarf vel að þeim rekstri sem er til staðar sem og fjármunum Keilis. Ég er þakklát fyrir traust stjórn og tækifærið að taka við keflinu," segir Berglind Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Keilis.

Berglind við útskrift í Háskólabrú Keilis.