Beitti áhrifum gegn álveri Norðuráls í Helguvík
Ljóst er að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra beitti áhrifum sínum strax í ágúst 2009 til þess að tryggja að ekkert yrði af byggingu álvers Norðuráls í Helguvík. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Í fréttaskýringu um mál þetta í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag kemur fram, að Steingrímur J. samdi m.a. við Ross Beaty, forstjóra og stjórnarformann Magma, um að félag hans gæti eignast helming í HS Orku og að HS Orka myndi leita leiða til þess að auka fjölbreytileika í viðskiptamannahópi sínum.
Þetta sýna gögn sem tekin hafa verið saman í fjármálaráðuneytinu og varða samskipti hins opinbera við Magma, HS Orku, Geysi Green, Norðurál, Íslandsbanka og sveitarstjórnir á Suðurnesjum og afhent hafa verið hagsmunaaðilum með vísan til upplýsingalaga.