Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Beint flug milli Keflavíkur og San Fransisco hefst í dag
Miðvikudagur 18. maí 2005 kl. 11:02

Beint flug milli Keflavíkur og San Fransisco hefst í dag

Beint áætlunarflug Icelandair til San Francisco hefst í dag, þegar Boeing 767 breiðþota hefur sig á loft frá Keflavíkurflugvelli með um 250 farþega innanborðs. Meðal farþega í þessu fyrsta flugi til kyrrahafsstrandar Bandaríkjanna eru Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri, sem taka þátt í hátíðardagskrá í borginni.

Í fréttatilkynningu frá Icelandair segir Sigurður Helgason, forstjóri, að flugið í dag marki ákveðin tímamót í sögu félagsins og samgöngusögu landsins. "Við erum með þessu flugi að opna nýja leið til og frá einhverri þekktustu og vinsælustu borg heims og með því að taka langdræga breiðþotu inn í áætlunarflugið og þróa tengistöð okkar á Keflavíkurflugvelli erum að leggja grunn að enn frekari útrás. Bókanir til og frá San Francisco eru í samræmi við áætlanir og við erum vongóð um framhaldið.”

Áætlunarflugið til San Francisco stendur á þessu ári fram í miðjan október og farnar verða fjórar ferðir í viku. Brottför verður alla dagana frá Keflavíkurflugvelli síðdegis, kl. 16.40 en komið verður til Íslands um klukkan 14.30 síðdegis. Skömmu síðar er brottför flugs Icelandair frá Íslandi til Osló, Stokkhólms, Kaupmannahafnar og London sem nýtist farþegum á leið frá San Francisco til Evrópulanda. Þessar tímasetningar fela í sér margvíslega möguleika, t.d. í betri nýtingu í aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

Í sumar verður framboð Icelandair í áætlunarflugi aukið um 20% frá því sem var í fyrrasumar, eða um 40% á tveimur árum. “Þar munar mest um flugið til San Francisco, en við munum einnig auka framboð á aðra staði eins og t.d. Boston og London, þar sem við munum nýta breiðþotuna. Einnig er í sumaráætluninni 2005 bætt við flugferðum til Frankfurt, Berlín, Munchen, Helsinki, Amsterdam og Orlando, “ segir Sigurður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024