Beinhákarlar í fæðuleit við Keflavíkurhöfn
Það er heldur betur líf við Keflavíkurhöfn í dag. Í morgun gekk makríltorfa inn í höfnina og ekki sú fyrsta í sumar. Þá fylgdust íbúar við höfnina einnig með stökkvandi laxi í höfninni í morgun.
Mun stærri gestir gerðu sig heimakomna við höfnina í dag þegar tveir til þrír beinhákarlar komu í fæðisleit í höfnina. Syntu þeir hring eftir hring með opinn kjaftinn og ryksuguðu svifið úr sjónum. Beinhákarlar eru bæði tannlausir og blindir. Matarræðið er einnig einfalt hjá beinhákörlum og stórsteikur hafsins eru ekki á matseðli þessara hákarla.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Fjölmargir fylgdust með hákörlunum við iðju sína í dag, enda stutt frá landi og auðvelt að fylgjast með atferli þeirra af bryggjusporðinum í Keflavík.