Bein útsending: Opinn íbúafundur ISAVIA í Reykjanesbæ
Í dag mun Isavia halda opinn íbúafund fyrir íbúa á nærsvæði Keflavíkurflugvallar um áhrif framkvæmda við flugbrautir á flugumferð og hljóðvist. Einnig verða kynntar niðurstöður hljóðmælinga sem og nýr vefur sem verður opinn almenningi þar sem sýnd er flugumferð í rauntíma. Fundurinn fer fram í bíósal Duus Safnahúsa í Reykjanesbæ klukkan 17:00.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia mun hefja fundinn á ávarpi. Þröstur Söring, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar mun upplýsa um þær framkvæmdir sem eru í gangi á flugbrautarkerfi Keflavíkurflugvallar í dag og hvaða áhrif þær munu hafa á flugumferð í sumar.
Valur Klemensson, deildarstjóri umhverfisdeildar Keflavíkurflugvallar mun kynna nýtt hljóðmælingakerfi sem Isavia mun taka í gagnið á næstu dögum en það sýnir flugumferð og hljóðmælingar í rauntíma og gerir almenningi kleift að nálgast upplýsingar um viðkomandi flugvél, þ.e. flugfélag og flugnúmer. Með komu kerfisins verður meðal annars hægt að senda inn ábendingar á einfaldan og skilvirkan hátt í gegnum vefsíðu Isavia. Að lokum mun Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar ávarpa fundinn. Fundarstjóri verður Guðný María Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Isavia.
Fundargestum gefst tækifæri til að spyrja frummælendur spurninga að loknum fyrirlestrum þeirra.
Fundinum verður einnig streymt á Facebook-síðu Víkurfrétta og er gert ráð fyrir að hann standi yfir í um klukkustund.