Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Beiðni um lögbann vegna Garðvangs komin til sýslumanns
Garðvangur í Garði. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Föstudagur 31. janúar 2014 kl. 13:21

Beiðni um lögbann vegna Garðvangs komin til sýslumanns

- Ekki liggur fyrir hvenær sýslumaður muni úrskurða um beiðnina um lögbannið.

Bæjarstjórn Garðs ákvað þann 22. janúar sl. að fela Forum lögmönnum að vinna að beiðni um lögbann á framkvæmd ákvörðunar meirihluta stjórnar DS um að hjúkrunarþjónusta við aldraða verði flutt frá Garðvangi til Nesvalla í Reykjanesbæ og Garðvangi verði þar með lokað. Stjórn DS var tilkynnt um þessa ákvörðun bæjarstjórnar sama dag og stjórninni veitt svigrúm í eina viku til að bregðast við. Engin viðbrögð höfðu borist og því lögðu Forum lögmenn fram beiðni um lögbann hjá sýslumanni í gær, fimmtudag. Þetta kemur fram á vef Sveitarfélagsins Garðs.

Ekki liggur fyrir hvenær sýslumaður muni úrskurða um það hvort beiðnin um lögbann verður tekin til greina, en óskað er eftir að sú niðurstaða sýslumanns liggi fyrir sem allra fyrst.

Forsenda þess að beiðni um lögbann er lögð fram er að bæjarstjórn Garðs telur að það sé ekki löglegt að svo stór ákvörðun sem hér um ræðir sé tekin af fulltrúum Reykjanesbæjar og Voga í meirihluta stjórnar, í beinni andstöðu við fulltrúa Garðs og Sandgerðisbæjar. Í því sambandi er vísað í álit lögmanna um að félagsform DS sé í raun sameignarfélag og í lögum um sameignarfélög er kveðið á um að svona ákvarðanir verði að vera samhljóða. Þannig geti meirihluti eigenda ekki knúið fram ákvarðanir sem ganga gegn hagsmunum annarra eigenda og vilja þeirra, á þann hátt sem gert var í stjórn DS í júlí 2013.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024