Beðið með uppsagnir á HSS
Beðið verður með uppsagnir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á meðan heilbrigðisráðuneytið, þingmenn Suðurkjördæmis og forsvarsmenn stofnunarinnar skoða betur málefni hennar. Þessir aðilar áttu fund í gær en starfsmannafundi á HSS hafði verið frestað deginum áður vegna hans. Þar átti að kynna fyrirhugaðan niðurskurð og uppsagnir.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir í samtali við mbl.is í morgun að ákveðið hafi verið að aðilar kæmu saman til fundar í lok febrúar eftir að búið yrði að fara yfir ýmis atriði sem stóðu útaf og þyrfti að skoða betur. Beðið verður með uppsagnirnar á meðan.
HSS var gert að skera niður á þessu ári um hátt í 90 milljónir króna, þrátt fyrir að hafa verið fjársvelt af yfirvöldum árum saman.