Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Beðið er niðurstöðu Ríkisendurskoðunar vegna vatnstjónsins á Vellinum
Mánudagur 22. janúar 2007 kl. 13:38

Beðið er niðurstöðu Ríkisendurskoðunar vegna vatnstjónsins á Vellinum

Alls munu 106 íbúðir í 13 húsum hafa skemmst í vantslekanum sem varð á Keflavíkurflugvelli í nóvember síðastliðnum.  Einnig varð tjón á ýmsum öðrum mannvirkjum af völdum lekans, s.s. á skrifstofuhúsnæði, leikskóla og verkstæðum.
Ekki liggur enn fyrir raunhæf áætlun um þann kostnað sem hlaust af tjóninu. Þetta kemur fram í svari Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Ríkisendurskoðun vinnur nú að stjórnsýsluúttekt vegna málsins.

Jón spyr m.a. að því hvernig eftirliti með mannvirkjunum hafi verið háttað og hver hafi borið ábyrgð á því. Í svari utanríkisráðherra segir að starfshópur sá sem skipaður var í apríl á síðasta ári hafi gengið úr skugga um að allar byggingar væru læstar þegar hann tók við lyklunum af Varnarliðinu. Á gátlistum VL hafi m.a. komið fram að hiti væri á öllum ofnum í húsunum á ofnstillingu sem gefa átti 17 gráðu hita í öllum herbergjum.  Í svari ráðherra má greina að svo virðist sem enginn hafi haft það hlutverk að hafa eftirlit með íbúðarhúsnæðinu. Aðeins hafi verið um það að ræða að sýslumannsembættið hefði með höndum öryggiseftirlit á svæðinu og Flugmálastjórn hafði eftirlit með þeim mannvirkjum sem sneru beint að rekstri flugvallarins.

Í svari ráðherra segir að í kjölfar þess að vatnstjónið uppgötvaðist hafi utanríkisráðherra þegar óskað eftir því við Ríkisendurskoðun að gerð yrði stjórnsýsluúttekt á umsýslu utanríkisráðuneytisins, stofnana þess og annarra aðila sem komu að eftirliti og umsjón með byggingum á varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Var þess sérstaklega óskað að úttektin beindist að stjórnsýslu þessara aðila sem varðað gæti umrætt vatnstjón. Niðurstöðu Ríkisendurskoðunar er að vænta innan skamms.

Jón Gunnarsson spyr einng um kostnaðinn sem fylgir því að koma umræddum mannvirkjum í fyrra horf og hver muni bera þann kostnað.
Í svari utanríkisráðherra má lesa að kostnaðartölur liggi ekki fyrir en Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar muni láta fara fram faglegt og óháð mat á tjóninu. Ríkið muni bera þann kostnað enda séu ríkiseignir ekki tryggðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024