Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Beðið eftir því að Vogar ljúki sinni umfjöllun um Suðurnesjalínu 2
Miðvikudagur 17. febrúar 2021 kl. 10:19

Beðið eftir því að Vogar ljúki sinni umfjöllun um Suðurnesjalínu 2

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti í gær framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Áður höfðu allir bæjarfulltrúar í Hafnarfirði og Grindavík samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi. Nú er beðið eftir því að Vogar ljúki sinni umfjöllun svo þetta mikilvæga verkefni komist í framkvæmd. Verkefnið hefur lengi verið í undirbúningi. Um er að ræða nýja 34 km langa 220 kV flutningslínu á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Hún mun tryggja meira afhendingaröryggi á Suðurnesjum og opna nýja möguleika í atvinnulífi. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Niðurstaðan varð, að loknu nýju umhverfismati , að mæla áfram með lagningu loftlínu að mestu með fram Suðurnesjalínu 1 og var sótt um framkvæmdaleyfi á þeim grunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við hjá Landsneti höfum í mörg ár bent á mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdir til að bæta raforkuöryggi á Suðurnesjum. Það er ánægjulegt að sjá málið þokast áfram,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs.

Fárviðrið sem gekk yfir í desember 2019 hafði mikil áhrif á flutningskerfið. Ríkisstjórnin setti á fót átakshóp til að vinna að mikilvægum úrbótum á innviðum landsins og var raforkuöryggi á Suðurnesjum meðal mikilvægustu verkefna.

„Þetta var áminning um hversu mikilvægt það er í nútímasamfélagi að búa við trausta innviði eins og flutningskerfi rafmagns og brýnt að hefjast handa og tryggja að íbúar og atvinnulíf á Suðurnesjum búi við sama afhendingaröryggi og aðrir landshlutar. Nú í desember síðastliðinn kom svo önnur áminning þegar jarðskjálftar á Reykjanesskaga fóru að aukast á ný“ segir Sverrir Jan Norðfjörð.“

Þrjú af fjórum sveitarfélögum á svæðinu hafi þegar afgreitt málið og aðeins sé beðið eftir því að Vogar ljúki sinni umfjöllun. Skipulagsstofnun fór fram á það í sínu áliti að sveitarfélögin sem hlut eiga að máli tækju sameiginlega afstöðu til valkosta og hafa nú þrjú þeirra samþykkt framkvæmdina.

Vefsvæði Suðurnesjalínu 2