Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 6. nóvember 2000 kl. 13:42

Bátur tekinn í skjóli nætur

Ellefu tonna nýsmíðaður Gáskabátur var nýlega tekinn í skjóli myrkurs í Keflavík klukkan fimm að morgni og dreginn til Reykjavíkur þaðan sem hann var sendur með Mánafossi til Akureyrar þar sem hann er nú geymdur á svæði Eimskipafélags Íslands. Það var kaupandi bátsins, Stefán Hjaltason á Raufarhöfn, sem stóð að flutningnum norður. Hann og Regin Grímsson skipasmiður standa í deilu um uppgjör á hinum nýsmíðaða bát. Reginn segir Stefán hafa „stolið bátnum“ en Stefán segir að sér hafi verið afhentur báturinn samkvæmt samningi, enda hafi hann verið búinn að fá lykla að honum. „Ég fór og sótti bátinn og vörslusviptingarmaður tilkynnti svo lögreglunni í Keflavík það um leið og ég renndi með bátinn út úr smábátahöfninni Grófinni. Við drógum hann til Kópavogs, þaðan inn í Sundahöfn og sendum hann því næst til Akureyrar þar sem hann er nú lokaður inni á tollsvæði. Þar verður hann þar til búið er að úrskurða í málinu í ráðuneytinu," sagði Ingimundur Magnússon rekstrarráðgjafi í samtali við DV. Málið er nú komið til samgönguráðuneytisins. Þar kærir Útgerðarfélagið Súlur ehf. á Raufarhöfn stjórnsýsluákvörðun Siglingastofnunar Íslands um að neita útgerðinni um að fullklára nýskráningu á hinum nýsmíðaða bát félagsins. Stefán er með öðrum orðum að krefjast þess að fá bátinn skráðan þannig að hann geti komið honum í rekstur samkvæmt upphaflegum áætlunum. Stefán hefur greitt Regin um 10 milljónir króna en Regin segir hins vegar að um 5 milljónir vanti upp á. Á meðan verði afsal ekki afhent. Ekki hefur náðst samkomulag um dagsektir sem farið var að beita samkvæmt kaupsamningi í sumar og um kostnað vegna viðbótarbúnaðar sem samkomulag hafði verið gert um á síðari stigum smíðinnar. Búist er við að úrskurður gangi um mál þetta í samgönguráðuneytinu í fyrri hluta nóvember. Báðir deiluaðilar hafa lagt fram gögn og greinargerðir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024