Bátur bundinn á björgunarskip: Vísa ábyrgð á Sandgerðishöfn
Útgerðarmaður bátsins sem bundinn var utaná björgunarskipið í Sandgerðishöfn á öðrum degi páska og olli 15-20 mínútna töfum á útkalli vegna fiskibáts í hættu, vísar ábyrgð á Sandgerðishöfn. Höfnin hafi úthlutað bátnum þessu plássi og hann hafi haft það í allan vetur.
Björgunasveitarmenn í Sandgerði sögðu í fréttum Sjónvarps að það væri ekki einsdæmi að aðrir bátar séu bundnir utan á björgunarbátinn og gagnrýndu það harðlega.
Hafborg KE var skammt undan landi við innsiglinguna í Sandgerði þegar báturinn missti vélarafl og tók að reka í átt að landi. Tveir menn voru um borð. Björgnarsveitin Sigurvon í Sandgerði var kölluð út en þegar til kom hafði annar bátur verið bundinn utan á Vörð, björgunarskip sveitarinnar. Það kostaði töf upp á a.m.k. stundarfjórðung á meðan verið var að losa bátinn frá. Sú töf hefði getar haft afdrífaríkar afleiðingar en Hafborgin var skammt undan landsteinum þegar nærliggjandi bátum tókst að koma til bjargar.
Eins og fyrr greinir vísar útgerð bátsins, sem bundinn var utan á björgunarskipið, ábyrgð á Sandgerðishöfn. Bátur þeirra hafi verið þar sem hafnarverðir hafi skipað fyrir.
Mynd: Komið með Hafborgu KE til hafnar í Sandgerði sl. mánudagskvöld.