Bátur brann og sökk í Vogum
Bátur varð eldi að bráð í höfninni í Vogum í nótt. Slökkviliði Brunavarna Suðurnesja barst útkall kl. 04:25 í nótt og þegar fyrstu slökkviliðsmenn komu á vettvang var báturinn alelda í höfninni. Ekki tókst að slökkva eldinn og sökk báturinn í höfninni.
Slökkviliðsmenn dældu froðu yfir bátinn en það dugði ekki til að slökkva eldinn. Að sögn slökkviliðs er talið að eldurinn hafi logað lengi áður en útkall barst slökkviliði.
Ekki var hætta á að eldurinn bærist í aðra báta í höfninni. Ákvörðun verður væntanlega tekin nú með morgninum hvort flak bátsins verði sótt á botn hafnarinnar og því komið á land.